Skólp úr dælu­­stöð Veitna fór í sjó við Sæ­braut í Reykja­­vík í dag. Ólöf Snæ­hólm Baldurs­dóttir, upp­­­lýsinga­full­­trúi Veitna, segir að þetta geti gerst þegar mikil úr­­koma er þar sem dælu­­stöðin ráði ekki við allt það magn sem berast til hennar.

„Það eru dælu­stöðvar við Sæ­brautina, dælu­stöðvar frá­veitu, og þetta er stöð á yfir­falli. Það þýðir að of mikið er að koma inn í kerfið og hún ræður ekki við allt sem kemur inn. Þetta gerist þegar það er úr­koma, tölu­verð úr­koma. Þetta er mjög út­þynnt skólp, mikið af hita­veitu­vatni í því og svo kemur ofan­vatnið af götunum við. Það sem nær ekki að fara í gegnum dælu­stöðina, það fer út í sjó. Það hefur tvær leiðir skólpið þegar svona á­stand er, annað hvort út í sjó eða aftur heim til fólks. Þetta er hluti af því að reka þetta kerfi.“

Ólöf Snæ­hólm Baldurs­dóttir, upp­­­lýsinga­full­­trúi Veitna.

Hún segir heimilt sam­kvæmt reglu­gerð um frá­veitur að veita því skólpi sem dælu­stöðin ræður ekki við út í sjó. „Í reglu­gerð um frá­veituna er þetta leyfi­legt, fimm prósent af tímanum sem við rekum kerfið. Kerfið er þannig upp­byggt að þetta er eina leiðin því hin er ekki fýsi­leg. Þegar er tölu­verð úr­koma og bráðnun, snjór og rigning, kemur meira inn í dælu­stöðina en hún ræður við. Þetta er sam­kvæmt reglu­gerð.“

Ólöf brýnir fyrir fólki að setja ekki rusl í klósettið, það sé helsta vanda­málið sem fylgir því þegar dælu­stöðvar hafi ekki undan. „Þegar skólp fer í sjó erum við með fyrir­tæki sem fylgist með fjörum og hreinsar ef á þarf að halda. Það er rétt að segja frá því að sjórinn ræður mjög vel við líf­rænu efnin. Coli­gerlarnir lifa að meðal­tali í níu klukku­tíma á þessum árs­tíma. Það er ruslið sem fólk setur í klósettin sem er oft vanda­málið. Klósettin eru ekki rusla­fötur. Við höfum verið að reyna að fræða fólk um það.“