Um 40 ábendingar hafa borist í samráðsgátt stjórnvalda vegna fyrirhugaðrar reglugerðar um fiskeldi. Lúta þær flestar að umhverfisáhrifum og verndun villtra laxastofna og hafa margir áhyggjur af því að sjókvíaeldi norskra laxa ógni þeim.

Íslenski náttúrverndarsjóðurinn (IWF) segir reglugerðardrögin „ófullburða og meingallað verk“, meðal annars út frá eftirliti með mengun, lúsasmiti, dýravelferð og upplýsingagjöf til almennings um starfsemi sjókvíaeldisfyrirtækjanna.

Hvað mengun sjávar varðar bendir IWF á að algengt sé að í einni kví sé um milljón löxum haldið á þröngu svæði í tvö ár. Frá þessu streymi saur, skordýraeitur, lyf og fleira beint út í sjóinn, skammt frá strandlengjunni. Aðrar reglur gildi um matvælaframleiðendur á landi.

Í svari umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn IWF kom fram að í fráveitum væri skólp hreinsað áður en því væri veitt út í „viðtaka“, það er sjóinn. En í sjókvíum lifði fiskurinn í viðtakanum og allur úrgangur færi því beint út í hann.

„Ekki myndast því skólp sem hægt er að safna og meðhöndla. Á mengunarvörnum vegna fiskeldis í sjókvíum er því tekið á annan hátt,“ segir í svarinu og þá átt við burðarþolsmat, umhverfismat og starfsleyfi fyrirtækisins.

Fleiri náttúruverndarsamtök létu í sér heyra, sem og veiðifélög laxveiðimanna.