Sig­ríður Gísla­dóttir ólst upp hjá al­var­lega veikri móður og upp­lifði full­komið sinnu­leysi heil­brigðis­kerfis og þeirra er ættu að sinna vel­ferð barna, Hún segir sögu sína í helgarblaði Fréttablaðsins.

Sig­ríður ólst upp hjá for­eldrum sínum á­samt þremur syst­kinum þar til hún var fimm ára og for­eldrar hennar skildu. Móðir hennar verður eftir með börnin fjögur og veikindi hennar á­gerast.

„Ég held að pabbi hafi þurft að fara út af heimilinu til að geta verið til staðar fyrir okkur börnin. Hún bannaði pabba að hitta okkur sem á þessum tíma var auð­veldara en það er í dag. Hann fór þá í for­ræðis­mál sem tók þrjú ár.“

Sig­ríður furðar sig á því að á meðan for­ræðis­deilan var í kerfinu í þrjú ár og veikindi móður hennar þar tekin fyrir, hafi aldrei neinn kannað að­stæður á heimilinu. Það sem meira hafi verið, móðir hennar starfaði þá sem dag­mamma og tók börn að sér í gæslu dag hvern.

„Við syst­kinin mættum mis­vel í skólann. Enginn at­hugaði þó með á­stand heimilisins, engar kvartanir bárust frá skólanum vegna lé­legrar mætingar. Við vorum þar fjögur og enginn átti sam­tal við okkur,“ rifjar Sig­ríður upp en öll syst­kinin gengu í Voga­skóla. Utan á þeim sást þó ekki að neitt amaði að enda gætti móðir þeirra þess að þau væru alltaf vel til­höfð og snyrti­leg.

Á­stæða la­krar mætingar þeirra syst­kina var sú að þau þurftu að að­stoða móður sína með gæslu barnanna.

„Mamma sagði að við yrðum að hjálpa henni að passa börnin og mín upp­lifun er að ég hafi varla verið í grunn­skóla,“ segir hún og bætir við: „Ég mætti mjög lítið í skólann en þegar ég mætti var ég skömmuð af kennurum fyrir slæma mætingu og fyrir að læra ekki heima. Ég var aldrei spurð hvort að það væri eitt­hvað að eða hvernig mér liði. Ég fór því að kvíða því mikið að mæta. Það hefði verið mjög mikil­vægt fyrir mig á þessum tíma að skólinn væri minn griða­staður.”