Breskur gagn­fræða­skóli sem nefndi eina af heima­vistum sínum eftir JK Rowling, höfundi Harry Potter bókanna, hefur breytt nafninu vegna um­deildra skoðana hennar á trans fólki. Að sögn skóla­yfir­valda Boswells, gagn­fræða­skóla fyrir börn á aldrinum 11 til 18 ára í Chelms­ford, Essex, sam­ræmast skoðanir höfundarins ekki við­horfum skólans.

Nafna­breytingin átti sér stað í júlí í fyrra en breskir fjöl­miðlar, þar á meðal BBC, greindu ný­lega frá málinu. Fram kemur í frétta­bréfi skólans að breytingin hafi verið gerð að beiðni nem­enda og starfs­fólks skólans.

Rowling hefur verið harð­lega gagn­rýnd af hin­segin aktív­istum og stuðnings­fólki þeirra fyrir að setja spurningar­merki við réttindi trans fólks á borð við það að veita trans konum að­gang að kvenna­klósettum.

Í frétta­bréfi skólans segir að „skoðanir höfundarins á þessu mál­efni sam­ræmast ekki stefnu og við­horfum skólans sem staðar þar sem fólki er frjálst til að vera eins og það er.“

Þá er tekið fram að sex heima­vistir skólans séu fyrir fram­úr­skarandi nem­endur og að vegna fjölda til­mæla frá nem­endum og starfs­fólki hafi skóla­yfir­völd tekið á­kvörðun um að breyta nafni einnar heima­vistarinnar.

Rowling komst fyrst í hann krappan á Twitter í júní 2020 vegna um­mæla þar sem hún kvartaði yfir orða­laginu „fólk sem fer á blæðingar“ og því að kynin tvö séu skil­greind sem sam­fé­lags­leg hug­tök.

„Ef kyn er ekki raun­veru­legt, þá er ekki til nein sam­kyn­hneigð. Ef kyn er ekki raun­veru­legt, þá er lifaður raun­veru­leiki kvenna út um allan heim þurrkaður út. Ég þekki bæði og dái trans fólk, en að þurrka út hug­takið kyn gerir mörgu fólki ó­kleift að ræða líf sitt á mikil­vægan hátt,“ skrifaði Rowling á Twitter.

Heima­vist Boswells skólans sem hét áður eftir Rowling hefur nú verið endur­skírð Hol­mes í höfuðið á bresku í­þrótta­konunni Dame Kel­ly Hol­mes.

„Við Boswells skólann ölum við á fjöl­breyttu, opnu og lýð­ræðis­legu skóla­um­hverfi, þar sem við hvetjum nem­endur til að þroskast yfir í sjálf­stæða og sjálfs­örugga borgara,“ segir Stephen Man­sell yfir­kennari Boswells.