Á Íslandi er unnið eftir stefnunni „Skóli án aðgreiningar“ en sum börn, sem skólakerfið hefur ekki getu til að mæta, hafa samt sem áður verið skilin frá samnemendum sínum og í alvarlegustu tilfellunum jafnvel lokuð inni.
Fréttablaðið hefur frá því að umfjöllun um þessi mál hófst heyrt í fjölda foreldra sem eru úrræðalaus og hafa annað hvort tekið börnin úr skólum eða að skólinn hafi neitað að taka börnin aftur. Þá standa þeim oft engin önnur úrræði til boða eða þeirra bíða langir biðlistar. Sum málin hafa orðið svo slæm að þau eru komin á borð lögreglunnar. Sjá hér og hér.
Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, rannsakar aðstæður barna sem eru skilin frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum og lauk fyrsta hluta rannsóknarinnar í byrjun vikunnar en rannsókninni er þó langt í frá lokið.
Skúli segir að til þess að svipta fólk, og þar með talið börn, frelsi þurfi að meginreglu lagaheimild og rannsókn hans í þessu máli hafi það sem útgangspunkt. Skúli segir að skoðun embættis umboðsmanns sé afmörkuð við frelsissviptingu, afleiðingar innilokunar á börn og hvernig verklagi, skráningu og upplýsingagjöf sé háttað í þessum málum.
Hann segir að ekki fari á milli mála að öll börn eigi rétt á skólavist og námi í samræmi við sínar þarfir en að þessi tiltekna rannsókn umboðsmanns snúi eingöngu að mögulegri frelsissviptingu nemenda, en ekki hugsanlegri skerðingu á rétti barna til náms sem getur fylgt þessum málum.
Brýnt að Skóli án aðgreiningar verði að raunveruleika
Sérfræðingar í málefnum barna eru sammála um að afleiðingar slíks aðskilnaðar og jafnvel innilokunar geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir börn um alla þeirra ævi.
Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, hefur kallað eftir því að fleiri og fjölbreyttari úrræði standi börnum og foreldrum til boða. Hún segir að þrátt fyrir að hér á landi sé unnið eftir stefnu Skóla án aðgreiningar hafi sú stefna aldrei orðið að raunveruleika. Hún segir mjög brýnt að svo verði.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, tekur undir það en segir að það sé ekkert nýtt að fötluð börn eða börn með einhvers konar raskanir eða sérþarfir séu skilin frá samnemendum sínum. Þuríður segir ótækt að svo miklar tafir séu á því að réttindi allra barna séu uppfyllt á Íslandi.
Það þarf ekki að fara í þetta óefni að börn séu lokuð inni. Það er alvarlegt að einhver skóli árið 2021 sé að mæla með svona útilokun.
„Það er ótækt að börn komi út úr grunnskóla með mölbrotna sjálfsmynd og sjái enga framtíð fyrir sér. Við þurfum að koma þessu í almennilegan farveg því það er ekki hægt að skella skuldinni á þau þegar þau koma óvinnufær út úr grunnskóla og segja að það sé eitthvað að þeim þegar kerfið hefur brugðist þeim löngu fyrir það,“ segir Þuríður Harpa.
Slíkur aðskilnaður getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir börn og í raun haft áhrif á allt þeirra líf. Svanhildur Svavarsdóttir, talmeina-, einhverfu- og boðskiptafræðingur, segir að öll hunsun sé niðurlæging og skömm og að börn eigi ekki að þurfa að vinna sig upp í það að fullorðnir séu góðir við þau.
„Börn þurfa oftast mest á manni að halda þegar þau láta verst. Þá eru þau að hrópa á hjálpina en hreinlega ráða ekki við sig,“ segir hún.
Svanhildur segir að hún þekki mörg mál þar sem börnin hafi í þessum tilvikum einangrast, jafnvel flosnað upp úr námi, og telur að ef horft sé á vandann með réttum gleraugum sé auðveldlega hægt að koma í veg fyrir slíkar aðstæður.
„Það þarf ekki að fara í þetta óefni að börn séu lokuð inni. Það er alvarlegt að einhver skóli árið 2021 sé að mæla með svona útilokun. Það er stóralvarlegt mál og afleiðingarnar tíu eða tuttugu árum síðar eru enn alvarlegar. Það er skelfileg staða og kennarar verða að hafa það hugfast að allt sem þeir gera hefur áhrif.“ segir Svanhildur.

Verður að vera til lagaheimild
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir að til þess að svipta fólk, og börn frelsi, þurfi að meginreglu lagaheimild og rannsókn umboðsmanns hafi það sem útgangspunkt.
„Hér koma til skoðunar neyðarréttarsjónarmið og nauðvarnarsjónarmið sem eiga við til skemmri tíma, en svipting á frelsi umfram það þarf í grunninn að styðjast við lagaheimild,“ segir Skúli.
Hann segir að auðvitað þurfi að skoða í einstökum tilvikum hvort um frelsissviptingu sé að ræða með tilliti til þess hversu lengi nemandi sé lokaður inni og hvort að það fari fram með samþykki hans sjálfs eða forráðamanns.
„Staðan getur verið sú að verið sé að grípa inn í aðstæður og vernda líf og heilsu nemandans sjálfs eða að tryggja að það verði ekki skemmdir á eignum á munum. Ef við erum hins vegar komin umfram þetta og það er verið að beita frelsissviptingu eða innilokun í öðrum tilgangi og í lengri tíma þá hlýtur sú spurninga að vakna hvar heimildirnar eru til þess.“
Skúli segir að skoðun embættis umboðsmanns sé afmörkuð við frelsissviptingu, afleiðinga innilokana á börn og hvernig verklagi, skráningu og upplýsingagjöf sé háttað í þessum málum.
„Við höfum verið að afla gagna um þessi mál til að staðreyna hvers konar atvik þetta eru en þau geta verið mjög fjölbreytt. Það er munur á því að grípa inn í aðstæður og að fara með barn inn í eitthvað herbergi í skamman tíma eða að nota svona herbergi sem þátt í kennslu eða meðferðarlegum tilgangi. En það sem tekur við ef foreldrar ákveða að taka barn úr skólanum er í sjálfu sér ekki eitthvað sem við höfum verið að skoða í þessu samhengi,“ segir Skúli.
Hann segir að ekki fari á milli mála að öll börn eigi rétt á skólavist og námi í samræmi við sínar þarfir en að þessi tiltekna rannsókn umboðsmanns snúi eingöngu að mögulegri frelsissviptingu nemenda. Ekki hugsanlegri skerðingu á rétti barna til náms sem getur fylgt þessum málum.
„Frá sjónarmiði umboðsmanns snýr þetta að því hvort það sé verið að fara að lögum sem Alþingi hefur sett og eftir atvikum stjórnarskrá landsins og alþjóðasáttmálum. Ef það er horft á þá mynd utan úr geimnum, ef svo má að orði komast, þá er það einfaldlega þannig að til þess að svipta fólk frelsi sínu þarf heimildir og það er útgangspunkturinn.“ segir Skúli.

Kallað eftir fjölbreyttari úrræðum
Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, segir að embættið hafi í gegnum tíðina átt í samskiptum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um börn sem ekki eru í skóla, af ólíkum ástæðum, en telur mikilvægt að greitt verði úr því að til séu fjölbreyttari úrræði fyrir öll börn.
„Við höfum í gegnum tíðina fengið ábendingar um börn sem ekki eru í skóla. Við höfum átt fundi með mennta- og menningarmálaráðuneytinu og átt í bréfaskriftum við þau. Fyrir nokkrum árum sendum við erindi um börn sem eru utan skóla til ráðuneytisins og við höfum viljað leggja áherslu á þennan hóp, sem er ekki, að fá þjónustu og þau börn sem ekki eru að sækja skóla eða eru í alvarlegri skólaforðun,“ segir Salvör og að embættið hafi kallað eftir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið og samband sveitarfélag um að taki þessi mál til sérstakrar skoðunar.
„Það eru dæmi um að foreldrar hafi tekið börn úr skóla eða að skólinn hafi ekki treyst sér til að taka á móti þeim og þá hefur sveitarfélagið ekki haft neitt annað úrræði.“
Hún segir að það verði að bregðast við þessu.
„Skóli án aðgreiningar er mjög mikilvæg stefna en hún hefur einhvern veginn aldrei orðið að raunveruleika,“ segir Salvör og að það sé mjög brýnt að stefnan sé raunverulega innleidd og að það sé frekari stuðningur við þessi börn inni í skólunum.
„Það er skólaskylda, en við höfum heyrt um og fengið ábendingar um börn sem ekki eru í skólanum, en það er engin yfirsýn hjá sveitarfélögunum um hversu mörg börn eru í þessari stöðu,“ segir hún og að það þurf að taka þessar upplýsingar saman og hafa þær aðgengilegar.
„Við höfum áhyggjur af börnum sem eru ekki að sækja skóla vegna kvíða eða eineltis án þess að sé gripið inn í og af börnum sem eru í alvarlegum vanda og fá ekki þjónustu.“
Salvör segir að henni finnist erfitt að tjá sig um rannsókn umboðsmanns á innilokunum barna þegar það sé svo margt sem enn eigi eftir að rannsaka en að það hafi komið skýrt fram í umræðu að það sé ekki það sama að börn séu lokuð inni í refsingarskyni og að börnum sé boðin útgönguleið úr einhverjum aðstæðum sem þau ráða ekki við sjálf.
„Ég get ekki lagt mat á þetta fyrr en ég sé ítarlegri úttekt á málinu,“ segir Salvör og tekur fram að ekkert slíkt mál hafi komið á hennar borð.

Aðskilnaður sumra barna ekki nýr
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að það sé ekkert nýtt í íslensku samfélagi að fötluð börn og börn með sérþarfir séu skilin að frá samnemendum sínum.
„Þetta er eitthvað úrræða- og þekkingarleysi. Sumir skólar standa sig auðvitað vel en aðrir alls ekki.“
Hún segir að þessi mál komi inn á þeirra borð því að oft sé um að ræða fötluð börn eða börn með einhvers konar raskanir.
„Við erum með málefnahóp um málefni barna og þar hefur þetta verið tekið upp því þessi börn þurfa á ákveðinni aðstoð að halda sem þau ekki fá. Við vitum að sjálfsmynd barna er að mótast og þau sem verða fyrir aðkasti, frá samnemendum eða kennara, það er kerfisbundið verið að brjóta niður sjálfsmynd þeirra og þessir einstaklingar koma mjög illa út úr grunnskólum,“ segir Þuríður Harpa en í haust sendi Öryrkjabandalagið bréf á fimm sveitarfélög þar sem úrbóta var krafist í málefnum barna ellegar yrði farið í mál við þau.
„Tilgangurinn með því að var að hreyfa við þessum málum, var að ýta við þessum málaflokki til að börn fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á lögum samkvæmt en eru því miður í allt of mörgum skólum ekki að fá,“ segir Þuríður og að það sama eigi að gilda í öllum skólum.
Hér er skóli án aðgreiningar og það þarf að skoða hvað það þýðir og hvaða rétt börn eiga samkvæmt því inni í skólanum. Svo þarf að framfylgja því. Það er réttur barna og þarna verða sveitarfélög og skólar að standa sig
Hún segir að augljóslega hafi orðið hreyfing á þessum málum og fagnar rannsókn umboðsmanns Alþingis í þessu máli.
„Það er ótækt að börn komi út úr grunnskóla með mölbrotna sjálfsmynd og sjái enga framtíð fyrir sér. Við þurfum að koma þessu í almennilegan farveg því það er ekki hægt að skella skuldinni á þau þegar þau koma óvinnufær út úr grunnskóla og segja að það sé eitthvað að þeim þegar kerfið hefur brugðist þeim löngu fyrir það,“ segir Þuríður Harpa.
Hún segir það mikil vonbrigði að það séu svo miklir tafir á því að réttindi barna séu uppfyllt. „Við vitum hver lausnin er, hvað þarf og hver réttindi barna eru. Skólar og sveitarfélög þurfa að laga þetta svo að börnunum okkar líði vel í skólanum og komi betur út úr þeim en þau hafa gert. Við vitum að það hefur jafnvel endað svo illa að þau hafa tekið sitt eigið líf.“
Stoppar þetta á skorti á peningum eða hvert er vandamálið?
„Það er eflaust hluti af vandamálinu en þetta hefur alltaf verið svona. Það þarf að skoða þá stefnu sem er í gangi. Hér er skóli án aðgreiningar og það þarf að skoða hvað það þýðir og hvaða rétt börn eiga samkvæmt því inni í skólanum. Svo þarf að framfylgja því. Það er réttur barna og þarna verða sveitarfélög og skólar að standa sig.“
Hún segir að aðskilnaður barna sé víðtækari í skólakerfinu því að fötluð börn fari oft ekki með í tómstundir og skólaferðir og það sé oft eftiráhugsun hvernig eigi að hafa þau með.
„Skólinn getur ekki fundið leið til að hafa barnið með eða hefur ekki hugsað út í það. Þetta er vandamál og það vantar að fólk sé lausnamiðaðra. Það vantar meiri umræðu um þetta því það eiga öll börn að geta tekið þátt.“

Áföll í barnæsku afdrifarík allt lífið
„Það er alvarlegt að svona hlutir í barnæsku geta verið afdrifaríkir allt þeirra líf, og haft áhrif á þau allt þeirra líf,“ segir Svanhildur Svavarsdóttir, talmeina- og einhverfu- og boðskiptafræðingur, en hún hefur um árabil unnið með börnum með fötlun eða sérþarfir.
Hún segir að á árum áður hafi fólk sem starfar með börnum getað sagt að þau vissu ekki betur en í dag séu til ótal rannsókna og leiðbeininga um hvernig eigi að bregðast við þegar börn eiga í hlut.
„Öll hunsun er niðurlæging og skömm. Börn eiga ekki að þurfa að vinna sig upp í það að við séum góð við þau. Börn þurfa oftast mest á manni að halda þegar þau láta verst. Þá eru þau að hrópa á hjálpina en hreinlega ráða ekki við sig,“ segir Svanhildur.
Hún segir að hún hafi oft fengið á sitt borð mál eins og hafa verið í umræðu undanfarin um börn sem hafa verið lokuð inni vegna úrræða- og þekkingarleysis í skólum á Íslandi. Hún telur að stærsta vandamálið sé að það sé ekki hlustað. Ekki á börnin og ekki á foreldrana.
„Ég var með barn hjá mér sem ekkert hafði gengið hjá í mörg ár, en svo með því að horfa á barnið með breyttum gleraugum og skilningi á því að vandi barnsins væri taugalíffræðilegur, en ekki hegðunarvandi, þá myndast skilningur á því að vandinn stafar af vanlíðan barnsins.“
Svanhildur segir að hún þekki mörg mál þar sem að börnin hafi í þessum tilvikum einangrast, jafnvel flosnað upp úr námi, og telur að ef að horft er á vandann með réttum gleraugum sé auðveldlega hægt að koma í veg fyrir slíkar aðstæður.
„Best er að spyrja og hlusta á börnin af hverju þau eru að haga sér á einn eða annan máta. Það hef ég eftir kenningum Ross Greene en hann segir í sínum rannsóknum að barnið sjálft sé þátttakandi í vandamálinu og að það þurfi að skoða hlið þess eins og aðrar hliðar. Það er svo oft einhliða horft á lausnina frá kennaranum og gleymist að spyrja nemandann. Það er það sem er svo sárt. Að við erum að gera eitthvað sem þarf ekki að vera svona flókið,“ segir Svanhildur.
Svanhildur telur að atferlisfræðingar hafi fengið of mikið pláss í menntakerfinu, að það sé verið að beita umbun og refsingu þar sem að það hreinlega gagnast ekki.
„Við erum í dag að læra afleiðingar þess að aðeins sé notast við atferlisfræðina. Hún gengur ekki alltaf upp og við erum að upplifa að áföll sem við upplifum sem börn eru að koma aftur og aftur fram. Það er áfall að lenda í því að vera hundsaður eða settur fram. Fólk man svona hluti, stundum í mörg ár, og það situr eftir. Orð geta verið svo særandi og viðbrögð til baka. Fyrir börn getur verið flókið að vera í þessu samspili,“ segir Svanhildur.
Leikurinn svo mikilvægur börnum
Svanhildur segir að það megi ekki gleyma því að þegar börn hefja sína skólagöngu, sex ára, eru þau vitsmunalega sex ára en tilfinningalega og félagslega aðeins fjögurra ára.
„Svo stækkar bilið því það er ekkert verið að eyða tíma að byggja þau upp félags- og tilfinningalega. Það er strax rokið í vitsmunaþáttinn og vanlíðan kemur upp og þau fara í frumheilann og ná ekki að taka við námi,“ segir Svanhildur og að í Finnlandi hefjist skólaskylda við sjö ára aldur og þar fái börn meiri tíma til að leika sér og þroskast tilfinninga- og félagslega.
„Við erum að æða of snemma af stað. Leikurinn skiptir svo miklu máli.“
Svanhildur segir að það verði að passa að samtalið á milli skóla og heimilis og að það sé gott. Það megi ekki enda þannig að skóli kenni heimili um og öfugt.
„Foreldrar eru sérfræðingar barna sinna og það verður að spyrja þau hvernig er hægt að styðja við þau. Ég er sérfræðingur í einhverfu, en foreldrar þekkja sín börn best. Það er svo mikilvægt að fara inn í umræðuna með þá hugmynd að búa til samspil á milli allra sem koma nálægt en ekki bara til að hafa áhrif. Það er alveg vonlaust. Vandinn í samfélaginu er skortur á hlustun. Að það sé hlustað á foreldra. Vanlíðan þeirra kemur að miklu leyti þaðan. Þegar þau eru að segja frá því að það sé staðreynd að barnið sé erfitt heima og í skólanum þá þarf það ekki gagnrýni, heldur lausnir. Að það sé unnið að því í samvinnu við þau að finna lausnir. Það skiptir svo miklu máli að það fari allir inn í samtalið markvisst til að hlusta á hinn aðilann.“
Foreldrar eru sérfræðingar barna sinna og það verður að spyrja þau hvernig er hægt að styðja við þau. Ég er sérfræðingur í einhverfu, en foreldrar þekkja sín börn best.
Svanhildur segir að þegar börn eru komin með stimpil um að vera „til vandræða“ í skólum þá hafi það oft þær afleiðingar að það sé ekki hlustað á þau og að það þurfi oft að vinna sérstaklega með það.
Spurð hvort að það þurfi að auka þekkingu innan hverrar skólastofu segir Svanhildur að það þurfi þroskaþjálfa, talmeinafræðinga og iðjuþjálfa í hvern skóla.
„Það vantar og er ekki sjálfsagt á Íslandi. Börn ættu að fá þetta í skólanum og það vantar þennan faglega grunn. En eitt, tvö og tíu myndi ástandið lagast heilmikið ef að nemendafjöldinn færi ekki yfir 20 í hverjum bekk. Þá myndi hugsanlega einn kennari ráða við þetta, en það er útilokað þegar þau eru svona mörg. Það munar svo mikið um allt eftir 20. Þetta er einfalda lausnin ef það á ekki að ráða meira fagfólk,“ segir Svanhildur en leggur áherslu á að samtalið skipti mestu máli.
„Það þarf ekki að fara í þetta óefni að börn séu lokuð inni. Það er alvarlegt að einhver skóli árið 2021 sé að mæla með svona útilokun. Það er stóralvarlegt mál og afleiðingarnar tíu eða tuttugu árum síðar eru enn alvarlegar. Það er skelfileg staða og kennarar verða að hafa það hugfast að allt sem þau gera hefur áhrif,“ segir Svanhildur.