Farþegi í flugi Ryanair frá Glasgow til Tenerife beit nefið af öðrum farþega í miðju hrottafengnu rifrildi sem hófst þegar kærasta annars farþegans ætlaði á tánum á salernið. 

Myndskeið af rifrildinu hefur farið sem eldur um sinu um netheimana, en þar má sjá tvo karlmenn í hávaðarifrildi meðan flugfreyja og aðrir farþegar reyna að skakka leikinn. 

Scottish Sun fjallar um málið og hefur eftir einum farþeganum, sem vildi ekki láta nafns síns getið að það hefðu verið nokkur aðskilin atvik í fluginu þar sem drukknir dólgar létu illa. „Það voru nokkuð um drukkin dólgslæti sem urðu til þess að nefið var bitið af manni.“ 

Ben Wardrop, sjónarvottur sem tók atvikið upp á myndband, segir rifrildið hafa hafist með því kona í fluginu fór úr skónum. Öðrum farþegum í fluginu líkaði það illa og rifrildið hófst í kjölfarið. „Þetta byrjaði allt þegar að kona, sem var ekki í skónum sínum í fluginu ætlaði á klósettið og mjög fullur maður greip í hana og sagði að einhver ætti að traðka á tánum á henni. Þá brást kærasti konunnar við,“ er haft eftir Wardrop á vef Daily Mail um málið. 

„Þeim mun meira vín sem maðurinn drakk og þeim mun meira rifust hann og kærasti konunnar, þeir voru báðir mjög fullir.“ 

Til handalögmála kom svo á endanum í miðju farþegarýminu. „Það var fjölskylda þarna með ungan dreng sem sat fyrir framan okkur og sáu allt sem gerðist. Þetta var mjög ógnvekjandi og mikið af saklausu fólki flæktist í þetta því það er svo lítið pláss í flugvélinni,“ segir Wardrop. Telur hann þó að áhöfn vélarinnar hafi brugðist hárrétt við erfiðum aðstæðum. Lögreglan á Tenerife flugvelli var í kjölfarið kölluð til aðstoðar og voru mennirnir handteknir.