Skólastjórnendum í Urriðaholtsskóla þykir miður að upplýsingagjöf varðandi vist barna í frístundaheimili hafi ekki verið betri. Fréttablaðið greindi frá því í gær að foreldrum hefði verið gert viðvart um að börnin þeirra væru á biðlista með minna en sólarhringsfyrirvara, eða um fimmleytið í fyrradag en frístundavistin hófst eftir skóla í gær, klukkan hálf tvö.
„Upplýsingagjöf um hvernig staða er varðandi innritun og biðlista á frístundaheimili í Urriðaholtsskóla hefði mátt vera betri fyrir þá forráðamenn/foreldra sem sóttu um pláss fyrir börnin fyrr í ágúst en fengu svör seint um biðlista og þykir skólastjórnendum það miður og verður bætt úr því,“ segir í svari Garðarbæjar við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið.
Hundrað börn ekki með pláss
Í tilkynningu sem birtist á vef Garðabæjar í gær sagði að 85 börn væru á biðlista um vist á frístund í bæjarfélaginu í heild sinni. Sú tilkynning hefur verið uppfærð, en nú kemur fram að hundrað börn séu að biðlista, en alls eru 466 börn með staðfesta vistun.
Í svari bæjarfélagsins segir að tölurnar hafi verið uppfærðar eftir nýjar upplýsingar frá frístundaheimilunum um stöðuna á hverjum stað hafi borist.
Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að öll hundrað börnin sem eru á biðlista hafi verið skráð í ágústmánuði. Auk þess segir að foreldrum hafi verið tilkynnt í maí að til þess að fá staðfesta vistun á frístundaheimili þyrfti að skrá börnin fyrir 15. júní.
Þriðjungur í Urriðaholti á biðlista
Af þessum hundrað börnum eru 43 börn í Urriðaholtsskóla, en þar eru 86 börn með staðfest pláss í frístundinni. Þá segir að fjölmargar af þessum 43 umsóknum hafi borist á síðustu dögum. Það þýðir að þriðjungur barnanna sem sótt hafa um frístund í skólanum séu ekki með pláss.
Ástæðan fyrir því að sum börn komist ekki að er mönnunarvandi, en í svari Garðabæjar segir að nú sé unnið hörðum höndum að því að ráða inn fólk og að vonir standa til að börnin muni komast að fljótlega.