Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að leggja út tæpar fimm milljónir króna til skólastjórnenda í bænum vegna vinnu við smitrakningu utan dagvinnutíma. Skólastjórnendur fá ekki greidda yfirvinnu, eru á svokölluðum fastlaunasamningi, en það var svo sannarlega nóg að gera hjá þeim í faraldrinum og mikið mæddi á þeim.

„Maður var á kannski á miðri hlaupaæfingu að taka við símtölum frá rakningarteyminu, í veislu hér eða veislu þar og við matarborðið eða að horfa á sjónvarpið á laugardagskvöldi að taka við símtölum og skipuleggja. Maður var alltaf til taks,“ segir Gróa Axelsdóttir, skólastjóri Stapaskóla í Reykjanesbæ og formaður félag skólastjórnenda á Reykjanesi.

Hún segir að svæðadeildir Skólastjórafélags Íslands hafi sent álíka bréf til allra sveitarfélaga. Ölfus og Árborg ásamt Reykjavík væru búin að svara kallinu en sums staðar væri baráttan erfiðari.

„Við erum ánægð að þetta hafi farið í gegn hér í Reykjanesbæ og vonumst til þess að sveitarfélög úti um allt land séu að stíga þessi skref. Ég veit að sumir þurfa svolítið að berjast fyrir þessu – sem er svolítið galið enda var þetta gríðarleg vinna og skipulag. Það var aldrei hægt að gera ráð fyrir að maður væri í fríi,“ segir Gróa.

Hún segir að vor sé í lofti og það sé örlítið léttara andrúmsloft núna þegar sér í endann á faraldrinum. „Það er búið að vanta um 25 prósent starfsmanna á hverjum degi í svolítinn tíma en sem betur eru fleiri að snúa til baka og við erum að eflast. Auðvitað er þreytan svolítið áþreifanleg því þetta reyndi andlega á. En með hækkandi sól og aðeins betra veðri þá er spenna í lofti enda að líða að árshátíð hjá okkur. Svo tekur páskafrí við. Það er ýmislegt að gerast og það er alltaf gaman í skólanum,“ segir Gróa.