Ingibjörg Ýr Pálmadóttir hefur látið af störfum sem skólastjóri Fossvogsskóla. Þetta tilkynnti hún starfsfólki á fundi í dag.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins bar uppsögnina brátt að en nýr skólastjóri á að taka við á morgun.

Mikið hefur mætt á Fossvogsskóla frá því að Ingibjörg tók við en húsnæði skólans í Fossvogi er nú undirlagt framkvæmdum vegna myglu sem kom upp í húsnæðinu. Kennsla fer nú fram í færanlegum stofum sem og í Korpuskóla. Ingibjörg hefur ekki viljað veita Fréttablaðinu viðtal vegna framkvæmdanna og ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.

Fram kemur í tölvupósti til foreldra að Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir muni taka við. Hún hefur langa reynslu af íslensku menntakerfi, síðastliðið ár hefur hún starfað á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs.