Að minnsta kosti sex manns þurftu að leita sér aðstoðar á slysadeild eftir að til átaka kom í Borgarholtsskóla í Grafarvogi um hádegisbil í dag. Enginn hlaut alvarlega áverka en starfsfólki, nemendum og foreldrum var illa brugðið eftir atburði dagsins.
Skólastjóri Borgarholtsskóla, Ársæll Guðmundsson, sendi foreldrum og forráðamönnum bréf um atburði dagsins í kvöld. „Ofbeldismenn mættu í skólann vopnaðir hnífum, hnúajárnum og hafnaboltakylfu í einhverju að því er virðist uppgjöri sem okkur skilst að hafi átt að fara fram allt annars staðar,“ segir Ársæll í bréfinu.
„Við erum öll mjög miður okkar vegna þessa atburðar."
Ekki nemendur skólans
Árásarmennirnir sem um ræðir eru ekki nemendur skólans að sögn Ársæls en hugðust finna kunningja sína í skólanum. Nemendum var um tíma haldið innandyra til að tryggja öryggi þeirra á meðan lögregla eltist við annan árásarmanninn.
„Þar sem einn ofbeldismannanna komst undan á hlaupum var allt kapp lagt á að koma nemendum í öruggt skjól með því að halda þeim í stofum og senda þá heim í hollum.“ Þegar sérsveit lögreglunnar bar að garði var allur skólinn rýmdur.
„Við erum öll mjög miður okkar vegna þessa atburðar en erum staðráðin í því að láta hann ekki eyðileggja fyrir okkur frábært skólastarf Borgarholtsskóla og halda áfram skólastarfinu þegar á morgun,“ ítrekar Ársæll.

Ofbeldið má ekki sigra
„Við viljum þakka nemendum fyrir yfirveguð viðbrögð í dag og leggjum ríka áherslu á að ofbeldið má ekki ná að sigra í okkar góða samfélagi.“
Nemendum stendur til boða að fá áfallahjálp sérfræðinga í skólanum sem verða til staðar í kennslustofum skólans á morgun. Ársæll hvetur nemendur eindregið til að ræða atburðinn heima við og ítrekar að starfsfólk skólans sé einnig til staðar fyrir nemendur. „Kennarar munu ræða þennan atburð við nemendur sína á morgun en það er mjög mikilvægt að eiga samtalið.“
Þegar skólinn var rýmdur urðu fjölmargar skólatöskur eftir og bendir Ársæll á að hægt verði að nálgast þær á morgun. Aðeins verður hægt að ganga inn um aðalinngang skólans og verður gætt upp á að engum óviðkomandi aðila verði hleypt inn í skólabygginguna.