Skóla­stjórn­endur á Ís­landi hafa verið settir í erfiða stöðu í haust þar sem þeim hefur verið gefið það hlut­verk að sjá um smitrakningu og senda nem­endur í sótt­kví eða smit­gát.

Í Frétta­blaðinu í dag greindi Magnús Þór Jóns­son, skóla­stjóri Selja­skóla og ný­kjörinn for­maður Kennara­sam­bands Ís­lands, að á­lagið vegna co­vid-tengdra starfa væri mikið og rúmast ekki innan starfs­skyldna skóla­stjórn­enda.

„Skóla­stjórar sitja uppi með það að taka stjórn­valds­á­kvarðanir utan skólans sem for­eldrar eru jafn­vel ó­sáttir við. Ég veit um ótal dæmi um það að for­eldrar eru ekki sam­mála mati skóla­stjóra á smitrakningu og það er auð­vitað eitt­hvað sem er ó­tækt í rauninni, varðandi sam­skipti heimilis og skóla,“ sagði Magnús í Frétta­blaðinu í dag.

Sam­kvæmt Magnúsi hafa börn einnig fengið mis­vísandi upp­lýsingar frá sótt­varnar­yfir­völdum sem hefur oftar en ekki sett skóla­stjórn­endur í erfiða stöðu. Dæmi eru um að skóla­stjórar hafi þurft að sækja smituð börn inn í kennslu­stund.

„Fólk hefur verið að lenda í að börn hafa verið sett í smit­gát og sett í hrað­próf. Þá hafa skila­boðin frá Suður­lands­braut [Hraðprófsstöð] mögu­lega verið sú að börnin megi fara í skólann og þurfa ekki að bíða eftir niður­stöðu hrað­prófsins. Svo eru skóla­stjórar að fá sendingu tveim tímum seinna frá for­eldrum, ekki al­manna­vörnum, um að barnið sé smitað og þá þarf fara inn í kennslu­stund og sækja það,“ segir Magnús.

„Það hefur verið tölu­vert mikið maus þannig skóla­stjórar hafa verið að bregðast við því á þann hátt að fylgjast náið með því hvort börn séu búin að fá niður­stöðu eða ekki,“ bætir hann við.

Magnús segir að skóla­yfir­völd hafi fengið þau skila­boð að nem­endur eigi að bíða eftir niður­stöðum hrað­prófs áður en þeir mæta í skólann. Þær upp­lýsingar hafa hins vegar ekki verið að skila sér á þeim stöðum sem hrað­próf eru fram­kvæmd.

„Það eru svo mörg verk­efni sem koma upp þar sem skóla­stjórar þurfa að taka á­kvarðanir um heilsu­fars­mál sem er utan þeirra ramma,“ segir Magnús.

Magnús Þór Jónsson, nýkjörinn formaður Kennarasambandsins.
Mynd/Kennarasamband Íslands

Óska eftir skjáskotum með heilsufarsupplýsingum

Sumir skólar hafa tekið upp á því að ein­hliða að óska eftir skjá­skotum af nei­kvæðum niður­stöðum frá nem­endum. Bjarni Már Magnús­son, prófessor í lög­fræði við Há­skólann í Reykja­vík, segir að engin laga­leg heimild fyrir því að færa þetta vald yfir á skóla­stjórn­endur.

Hann segir það sé einnig mjög vafa­samt að skólar séu að óska eftir per­sónu­legum upp­lýsingum um heilsu­fars­mál nem­enda.

„Ef þau eru að koma úr smit­gát eða sótt­kví þá eiga þau að senda skjá­skot af niður­stöðum prófanna á um­sjónar­kennara. Hvað á hann að gera við þetta? Það er einnig í per­sónu­verndar­lögum mjög harðar reglur um vinnslu um við­kvæmra per­sónu­upp­lýsinga sem eru m.a. heilsu­fars­upp­lýsingar. Það er alls konar svona fletir. Eitt er þetta heildar­kerfi þar sem skólarnir eru látnir út­færa þetta og svo ein­hliða að­gerðir sem ein­stakir skólar eru farnir að grípa til,“ segir Bjarni.

Hægt er að lesa lengri viðtal við Magnús og Bjarna hér.

Bjarni Már Magnús­son, prófessor í lög­fræði við Há­skólann í Reykja­vík,