Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, segir að skóla­stjórar séu að reyna finna milli­veg til að halda skóla­starfi gangandi með því að meina börnum í smit­gát að mæta í skólann. Þeir beri ábyrgð á sínum stofnunum en þurfa að gæta þess að starfa inann þeirra reglna sem gilda almennt um skólastarf.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá fyrir helgi hafa skóla­stjórar verið að meina börnum í smit­gát að mæta í skólann sem er ekki í sam­ræmi við til­mæli land­læknis og reglur um smit­gát. Þeir for­eldrar sem Frétta­blaðið hefur rætt við er ó­sáttir með þessa ein­hliða á­kvörðun skóla­stjórn­enda enda fá for­eldrar ekki leyfi frá vinnu til að vera heima með börn í smitgát.

„Auð­vitað bera skóla­stjórar á­byrgð á rekstri sinnar stofnunnar og maður finnur það að eina sem þeir eru að hugsa um er að halda skóla­starfinu eins mikið gangandi eins og hægt er. En í okkar reglum er þetta tvennt. Annars vegar sóttkví og hins vegar smit­gát og þar er hugsunin að halda skóla­starfinu gangandi og sem flestir krakkar geti komið í skólann,“ segir Víðir.

Vissu alveg að börn í smitgát myndu greinast

Á fundum al­manna­varna­deildar með skóla­stjórn­endum fyrir haust­önnina óskuðu skóla­stjórn­endur eftir breytingum á reglum um sótt­kví til að reyna halda skóla­starfinu gangandi eftir bestu getu og úr varð hug­takið smit­gát, að sögn Víðis.

„Svo hefur það gerst í skólum þar sem þessi hóp­smit hafa komið upp sem hafa verið mjög þung fyrir skólana. Þá hafa menn gripið til þess að finna ein­hverja milli­leið milli smit­gátar og sótt­kvíar og beðið þá krakka sem eru í smit­gáttinni að koma ekki í skólann,“ segir Víðir

„Þegar við fórum af stað með þetta vissum við alveg að það yrðu til­felli þar sem þeir sem væru í smit­gát myndu greinast og þá myndi fjölga í sótt­kví og fjölga í smit­gát. Svo höfum við séð þetta í nokkrum skólum að þetta hefur orðið bara það ó­stjórnlegt að menn hafa farið í það að fella niður kennslu, eins og var gert í Kárs­nes­skóla á föstu­daginn,“ bætir Víðir við.

Að hans mati er lítið annað hægt að gera en að fella niður kennslu þegar smit eru farin að telja nokkra tugi.

Þurfa að gæta þess að starfa innan reglna

Spurður um á­hyggjur for­eldra sem vilja að börn í smit­gát fái að mæta í skólann segir Víðir málið vera snúið.

„Það var verið að reyna finna milli­leið til að reyna láta skólanna ganga en hin leiðin sem skóla­stjórar hafa er bara að fella niður kennslu annað hvort hjá heilum ár­göngum eða jafn­vel eins og í sumum skólum þar sem skólanum er lokað í ein­hverja daga.“

Spurður um hvort hann telji skóla­stjóra hafa svig­rúm til að skil­greina smit­gát sjálfir, segir Víðir að skóla­stjórar verði auð­vitað að gæta því að starfa innan reglna.

„Það byggir í sjálfum sér ekki á neinum reglu­gerðum um sótt­varnar­ráð­stafarnir þetta byggir á þeirra mati á hvað þarf að gera til að halda skólunum opnum. Á sama tíma þurfa þeir náttúru­lega að gæta að því að starfa innan þeirra reglna sem þeim er sætt al­mennt um skóla­starfið og hvaða heimildir þeir hafa til að tak­marka komu barna í skólann og annað slíkt,“ segir Víðir.

„Þarna er náttúru­lega bara býr að baki góður vilji að reyna láta skóla­starfið ganga í flestum til­fellum dugar smit­gáttin en í sumum til­fellum vilja menn ganga eh lengra. Það er oft undan­fari þess að menn hafa þurfi að loka skólanum í ein­hverja daga,“ bætir Víðir við.

Skólarnir þeir einu sem vita hvaða nemendur voru saman

Magnús Þór Jóns­son, ný­kjörinn for­maður Kennara­sam­bands Ís­lands og skóla­stjóri Selja­skóla, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að það þyrfti að breyta þessu fyrir­komu­lagi þar sem co­vid-tengd verk­efni væru að sliga skóla­stjórn­endur.

Víðir segir hins vegar afar erfitt að erfitt að færa þessi verk­efni frá skólunum og til lög­reglunnar.

„Við höfum fundað marg­oft með þeim og farið yfir og reynt að finna leiðir en staðan er ein­fald­lega þannig að það er enginn annar en skólinn sem getur gefið okkur upp­lýsingar um hvaða nem­endur eru saman,“ segir Víðir.

Al­manna­varna­deild lög­reglunnar hefur bætt við sig sex starfs­mönnum sem eru ein­göngu að að­stoða skólanna við þessi verk­efni. Þrír starfa ein­göngu með skóla á höfuð­borgar­svæðinu og þrír með lands­byggðina og höfuð­borgar­svæðið eftir þörfum.

„Við erum að gera það sem við getum til að hjálpa þeim en þetta er samt sem áður alltaf á skólanum. Annars vegar að gefa okkur upp­lýsingar um hverjir þetta eru sem þurfa að fara í sótt­kví og smit­gát og síðan þessi upp­lýsinga­miðlun til for­eldra. Það er því miður erfitt að gera það með öðrum en að það fari í gegnum skólanna. Við erum að gera okkar að besta að létta þetta hjá þeim,“ segir Víðir að lokum.