Kennsla í Fossvogsskóla verður færð í hinar ýmsu byggingar í Laugardalnum, en loka þurfti hluta skólans vegna myglu í skólahúsinu. Börnin verða ferjuð á milli með rútu.

Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um ástand Fossvogsskóla. Tilkynnt var um það á foreldrafundi að rýma þyrfti hluta skólahússins vegna myglu- og rakaskemmda.

Sjá einnig: Álmu í Breiðholtsskóla lokað vegna myglu

Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri tilkynnti foreldrum skólabarnanna þetta með tölvupósti í gær. Hún boðar til foreldrafundar á næstkomandi mánudag til að ræða fyrirkomulagið betur, ásamt því að fræðslufundur fyrir foreldra um áhrif myglu á innivist og heilsu er í undirbúningi.

Kennsla 4. til 7. bekkja verður í húsnæði Knattspyrnusambands Íslands og kennsla í 2. og 3. bekk verður í húsnæði Þróttar og Ármanns. Kennsla 1. bekkjar verður í Útlandi fyrst um sinn á meðan tryggt húsnæði er fundið fyrir þá nemendur. Stefnt er að því skólastarfið verði allt í Laugardalnum. Ástæða þess að 1. bekkur byrjar í Útlandi er sögð vera að sá hópur þarf á mestum stöðugleika að halda.