Það er snúið verkefni að umbylta kennsluháttum í fjölmennum skóla á nokkrum dögum. Stjórnendur Háteigsskóla stóðu þó frammi fyrir því þegar skólanum var lokað skyndilega vegna COVID-19 smits starfsfólks. Með litlum fyrirvara þurfti að samhæfa alla kennara og stjórnendur skólans og hefja fjarkennslu fyrir um 460 nemendur í fjarkennslu.

„Það skipti sköpum að við vorum að miklu leyti tilbúin. Við byrjuðum síðasta haust að innleiða fjarkennslu á unglingastigi í gegnum Google Classroom sem hefur gefið góða raun,“ segir Arndís Steinþórsdóttir, skólastjóri Háteigsskóla.

Sú kennsla var síðan nýlega yfirfærð yfir á bekkjardeildir á miðstigi en við skyndilega lokun skólans urðu síðan allar deildir að fara að nýta tæknina í fjarkennslu.

„Fyrirvarinn var skammur en við náðum að setja upp ágætt skipulag. Allir umsjónarkennarar funda daglega með sínum nemendum í gegnum Google Hangouts meet og þeir fá síðan verkefni sem hæfa þeirra aldri,“ segir Guðfinna Hákonardóttir, verkefnastjóri nýsköpunar í Háteigsskóla.

Arndís og Guðfinna eru sammála um að breytt skipulag hafi gengið mun betur en þær þorðu að vona og hafi í raun gefið skólastjórnendum nýja sýn á skólastarfið.

„Það hefur verið gaman að upplifa hvað þessi kynslóð nemenda er fljót að grípta tæknina. Einnig hefur þessi reynsla sýnt okkur að við vanmetum í sumum tilvikum hvað þessir krakkar eru færir og tilbúnir að halda utan um sitt nám sjálfir,“ segir Arndís.

Hún segist sannfærð um að skólastarfið verði ekki samt eftir að kórónafaraldurinn verði yfirstaðinn.

„Við munum koma út úr þessu á talsvert öðrum stað heldur en þar sem við byrjuðum. Við eigum að nýta okkur tæknina og kosti hennar í kennslu en ekki að einblína á neikvæðu þættina,“ segir Arndís.

Guðfinna tekur undir þessi orð og segir að skólastarfið hafi tekið stórt stökk síðustu daga.

„Það er kannski við hæfi að líkja þessari reynslu við tölvuleik. Þessar aðstæður hafa gert það að verkum að við höfum farið upp um mörg borð,“ segir Guðfinna.