Atli Viðar Thorstensen hjá Rauða krossinum segist áætla að um 70 prósent þeirra úkraínsku flóttamanna sem hafa komið til Póllands síðustu vikur kjósi að dvelja í Póllandi í von um að geta snúið aftur til heimalandsins. Um þriðjungur hyggist dvelja í öðrum löndum.

Öll ríki Evrópu nema Bretland hafa afnumið vegabréfsáritun og opnað sín landamæri fyrir úkraínska flóttafólkinu með sama hætti og Ísland.

Auk þess mikla fjölda sem nú er á faraldsfæti innan Evrópu hyggjast Bandaríkjamenn taka við allt að 100.000 Úkraínumönnum vegna innrásar Rússa. Mesti flóttamannavandi sögunnar frá síðari heimsstyrjöld er orðinn að veruleika. Ráðamönnum og erlendum fjölmiðlum ber ekki saman um hve margir hafa flúið hræðilegar aðstæður í Úkraínu eftir að Pútín hóf innrás sína fyrir mánuði.

Atli Viðar er nýkominn til Íslands frá Lublin og Varsjá. Hann fundaði með Rauða krossinum og kynnti sér ástandið.

„Það er rætt um að 2,4 milljónir flóttamanna séu komnar til Póllands frá 24. febrúar en fjöldinn gæti hæglega verið rúmlega þrjár milljónir. Flestir eiga sér þann draum að snúa til baka,“ segir Atli Viðar.

Rauði krossinn og mörg önnur hjálparsamtök í nágrannaríkj­um Úkraínu leggja nótt við nýtan dag, að sögn Atla, til að bregðast við ástandinu. Langstærstur hluti flóttafólksins er konur og börn, enda eru karlmenn sem reyna að flýja jafnvel litnir hornauga og snúið við vegna herskyldunnar í Úkraínu, að hans sögn.

Frá vettvangi sprengjuárása í Kænugarði.
Fréttablaðið/Getty

Í Póllandi eru núna 28 móttökumiðstöðvar þar sem flóttafólkið fær heita máltíð, upplýsingar og tímabundið húsaskjól. Flestir sem fá skjól í Varsjá þessa dagana fá inni hjá fjölskyldum sem eru kunnugar eða tengdar flóttafólkinu. Það reynir mjög á innviði borgarinnar, ekki síst stórfelld fjölgun barna í skólakerfinu, eða um 84.000, að sögn Atla Viðars.

Erlendir fjölmiðlar áætla að fólksfjölgun í Varsjá sé hátt í 20 prósent síðan innrásin hófst. Það jafngildir 400.000 til 500.000 nýjum íbúum. Jafnvel er talið að meira en fjórðungur íbúa Úkraínu hafi hrakist burt af heimilum sínum.

Samkvæmt pólskum fjölmiðlum stendur Pólland úkraínskum flóttamönnum áfram galopið.

Íslensk yfirvöld reikna með að taka á móti hundruðum, jafnvel þúsundum, úkraínskra flóttamanna eftir því sem fram hefur komið.