Reykjavík Framtíð Skólamunastofunnar í risi Austurbæjarskóla er í uppnámi, en enn á ný eru uppi hugmyndir um að úthýsa henni úr skólanum. Aðeins er rúmt ár frá því lagt var á ráðin um flutning safnsins úr húsinu, en ekkert varð af honum eftir að háværum mótmælum var hreyft.

„Nú, skömmu eftir kosningar, gerist það svo aftur, að einhverjum dettur í hug að kasta safninu á vergang,“ segir Einar Þór Karlsson, fyrrverandi nemandi og kennari við skólann, sem er einn margra sem ber hlýjan hug til safnsins. Nú hafi borist tilskipun um að pakka því í kassa og koma á burt.

Hann segir safnið vera einstakt sinnar tegundar, enda geymi það fjölmarga ómetanlega muni úr sögu skólans, sögu Reykjavíkur og sögu skólahalds á Íslandi.

Einar Þór segir að ekki hafi heyrst af neinum áformum um að koma safninu fyrir í nýjum húsakynnum og segir það bera vott um skilningsleysi á verðmæti þess.

„ Sagt er að heimskan ríði ekki við einteyming,“ segir hann ómyrkur í máli og skilur ekki hvernig það hefur gerst að þessi vitleysa með Skólamunastofuna fari aftur af stað.

„Öll umræða fyrra árs hlýtur að hafa farið gjörsamlega fram hjá viðkomandi og því kannski nóg að upplýsa um hvað er í húfi til að viðkomandi sjái að sér og hætti við þessa vitleysu,“ segir Einar Þór Karlsson.