Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla og formaður nefndar sem vann fyrir nokkrum árum að breytingum á námstíma framhaldsskólanna, segir Karl Frímannsson, nýjan skólameistara MA, hjakka í gömlu fari.

Karl lýsti þeirri skoðun sinni i Fréttablaðinu í gær að endurskoðun þyrfti að fara fram eftir styttingu námstíma til stúdentsprófs þar sem horfa ætti á álagsdreifingu allra þeirra þrettán ára sem það tekur nú að ná stúdentsprófi. Mörg dæmi væru um að framhaldsskælingar ættu erfitt með að sinna náminu vel samhliða félagsstörfum og áhugamálum, eins og þó hefur verið álitinn mikilvægur hluti framhaldsskólaáranna.

Ársæll segir fjarstæðu að kerfisbreytingin hafi valdið ofurálagi í framhaldsskólum. Ef svo sé hafi skólum ekki gengið nógu vel að aðlaga sig nútímanum.

Tækni hafi fleygt fram og bylting orðið í upplýsingaöflun. Ef álagið sé gríðarlegt sé skýringin að engu hafi verið breytt innan viðkomandi skóla.

„Það náttúrlega gengur ekki ef skólarnir hafa ekki breytt starfsháttum sínum í takti við nýja tíma,“ segir Ársæll.

„Ísland var orðið eina landið í vestrænum heimi þar sem nemendur fengu inngöngu tvítugir í háskóla – oftast voru þeir átján ára,“ bætir hann við um stöðuna þegar skrefið var stigið árið 2016.

Ársæll telur heppilegra að ræða hvort samræmd próf verði færð fram um eitt ár, tekin í lok níunda bekkjar.

Námsárangur réði hvort nemendur myndu sleppa 10. bekknum. Áætla mætti að um 20 prósent nemenda myndu færast upp. Þeir sem eftir yrðu fengju mun betri þjónustu af hálfu kerfisins.

„En að hjakka í gamla farinu eins og Karl Frímannsson, það er eldgömul umræða.“