Í nýrri skýrslu UNICEF, Barna­hjálpar Sam­einuðu þjóðanna, A­verting a Lost CO­VID Generation, vara sam­tökin við því að kórónu­veiran muni valda ó­aftur­kræfum skaða og stefna heilli kyn­slóð barna í hættu ef ríkis­stjórnir og al­þjóða­sam­fé­lagið bregst ekki við.

Í skýrslunni er fjallað ítar­lega um lokanir skóla og hvaða á­hrif þær hafa á börn víða um heim. Þar segir að skóla­lokanir í far­aldrinum hafi haft á­hrif á um 90 prósent nema um allan heim, af þeim um 743 milljónir stúlkna.

Samtökin vara við margvíslegum neikvæðum afleiðingum skólalokana og mælast til þess að reynt sé að halda þeim opnum.

„Kórónu­veiran hefur skapað neyðar­á­stand í mennta­málum um allan heim og á­hersla verður að vera lögð á að finna leiðir til að halda skólum opnum með öruggum hætti og um leið efla leiðir til fjar­kennslu. Kostnaðurinn við að loka skólum til lengri tíma mun vega mun þyngra en að halda þeim opnum og af­leiðingarnar munu hafa á­hrif á sam­fé­lög til fram­búðar. Um þriðjungur barna í heiminum getur ekki stundað fjar­nám þegar skólarnir þeirra loka og því er menntun heillar kyn­slóðar barna í húfi. Að tryggja menntun barna er því al­gjört for­gangs­at­riði hjá UNICEF,“ segir Steinunn Jakobs­dóttir, kynningar­stjóri UNICEF á Ís­landi, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Kostnaðurinn meiri til lengri tíma

Í skýrslunni segir að sam­hliða auknum fjölda smita hafi farið aftur af stað sú um­ræða um hvort eigi að loka skólum aftur. Þar segir þó að rann­sóknir sýni að kostir þess að hafa skólana opna séu miklu meiri en kostnaðurinn sem fylgi því að loka þeim.

Þar segir að sam­fé­lags­smit séu ekki mikil í skólunum og að gögn frá alls 191 landi sýni engin tengsl á milli aukningar í fjölda smita og skóla­opnanna.

Steinunn Jakobsdóttir er kynningarfulltrúi UNICEF á Íslandi.
Fréttablaðið/Eyþór

Börn treysta á ýmsa aðra þjónustu í skólum

Í mati Sótt­varna­stofnunar Evrópu á hlut­verki skóla sem fram­kvæmt var í 31 landi í júlí á þessu ári kom fram að smit á milli barna í skólum hafi verið ó­al­gengt og að aðal­á­stæða þess að börn smituðust hafi ekki verið dvöl þeirra í skólanum. Þó er tekið fram að ekki gildi það sama um grunn­skóla og hærra skóla­stig.

„Skóla­lokanir geta haft í för með sér al­var­lega og nei­kvæða niður­stöður fyrir börn. Börn verða ber­skjölduð fyrir mörgum hættum,“ segir í skýrslunni.

Segir að því lengur sem skólar séu lokaðir því meiri hætta sé að að börn tapi þekkingu og tæki­færi á að læra og þar með fram­tíðar­tekjum og heil­brigði. Þá er talið að brott­fall geti aukist sam­hliða skóla­lokunum en tekið er þó fram að það fari eftir aldri barnsins hvort líkurnar aukist.

Þá eru mörg börn sem treysta á að fá næringu og ýmsa sál­fræði -og heil­brigðis­þjónustu í skólanum og sé þeim lokað verði þau af þeirri þjónustu.

Á myndinni er Arturo Javier Rivarola Gimenez í Paragvæ. Hann er með heilalömun.
Mynd/UNICEF

Alþjóðlegur dagur barna

Skýrslan A­verting a Lost CO­VID Generation er gefin út í dag í til­efni af al­þjóða­degi barna og er fyrsta ítar­lega greiningin á af­leiðingum kórónu­veirunnar á börn og ung­menni um allan heim.

í skýrslunni kemur fram að í nóvember á þessu ári hafi alls 11 prósent þeirra tæp­lega 26 milljóna sem hafa sýkst af kóróna­veirunni verið börn og ung­menni undir 20 ára aldri. Fleiri hafa sýkst á aldrinum 10 til 19 saman­borið við 0 til 9 ára. Þá hafa fleiri drengir sýkst en stúlkur er fram kemur í skýrslunni.

Þar segir að af þeim börnum sem lokanir höfðu mikil á­hrif á hafi um 111 milljónir verið í minna þróuðum löndum þar sem miklu færri hafa að­gang að staf­rænu náms­efni og úr­ræðum og hafa minni stuðning for­eldra.

Þá segir einnig að landa­mæra­lokanir, ras­ismi og úti­lokun setji börn á flótta ú mikla hættu og að þau séu oft úti­lokuð frá úr­ræðum sem eigi að verja fólk fyrir CO­VId-19. Það var í það minnsta stað­reynd í 59 löndum þar sem upp­lýsingar voru til um málið.

Þá segir að mikið rof hafi verið á geð­þjónustu fyrir börn og ung­menni og að vegna þess að flestir þrói með sér geð­heil­brigðis­vanda­mál sem ung­menni setji það þau í mikla hættu. Þá auki það hættuna að fé­lags­líf barna sé veru­lega skert og að það muni hafa tals­verð á­hrif á fé­lags­þroska þeirra. Þau missi af mörgum stærstu augna­blikum þess að vera ung­lingar vegna skóla­lokanna, við­burða sem hafi verið hætt við eða frestað.

„Það skiptir máli að hlusta á börn og ung­menni. En það er ekki nóg að hlusta, það þarf að taka mark á því sem þau hafa að segja, að leifa ungu fólki að hafa á­hrif á á­kvarðanir sem þau varðar og að ráða­menn mæti þeirra þörfum. Unga fólkið mun þurfa að lifa með af­leiðingum þessa heims­far­aldurs og hvernig brugðist er við hefur bein á­hrif á þeirra fram­tíð,“ segir Steinunn.

Smitum meðal barna hafi fjölgað

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að eitt af hverjum níu til­kynntum CO­VID-til­fellum í heiminum eru börn og ung­menni og hefur smitum í þessum aldurs­hóp fjölgað mikið. Þá fjallar skýrslan einnig um að lang­tíma­á­hrif veirunnar á heila kyn­slóð séu ó­tví­ræð. Á­ætlað er að fjöldi barna sem búi við fá­tækt hafi aukist um fimm­tán prósent að um 140 milljónir barna á þessu ári.

„Ógnirnar eru marg­vís­legar og því lengur sem þetta á­stand varir, þeim mun djúp­stæðari á­hrif mun þetta hafa á menntun barna, heilsu þeirra, næringu og vel­líðan. Al­þjóða­dagur barna verður að vera dagur þar sem við hugsum um lausnir og í­myndum okkur betri fram­tíð, fyrir öll börn,“ segir Steinunn.

Að­gerða­á­ætlun UNICEF við af­leiðingum CO­VID-19

Með skýrslunni fylgir að­gerða­á­ætlun og á­kall um að ríkis­stjórnir, einka­geirinn og sam­starfs­aðilar taki hana al­var­lega. Á­ætlunin er í sex liðum og felur í sér að:

  1. Tryggja að öll börn hafi að­gang að menntun og að staf­ræna bilið verði brúað
  2. Tryggja að­gang að næringu og heil­brigðis­þjónustu og gera bólu­setningar við­ráðan­legar og að­gengi­legar öllum börnum
  3. Styðja við geð­heil­brigði barna og ungs fólks og binda enda á mis­notkun, kyn­bundið of­beldi og van­rækslu
  4. Auka að­gengi að öruggu drykkjar­vatni og hrein­lætis­að­stöðu og takast á við um­hverfis­spjöll og lofts­lags­breytingar
  5. Bregðast við aukinni fá­tækt meðal barna og tryggja öllum bata án að­greiningar
  6. Auka að­gerðir til að vernda og styðja börn og fjöl­skyldur þeirra sem búa við stríðs­á­tök, ham­farir og eru á flótta.

Hægt er að kynna sér skýrsluna nánar hér.