„Við erum bara á öruggasta stað í heimi, held ég,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, skólastýra og einn stofnenda listalýðskólans LungA á Seyðisfirði. Þrátt fyrir COVID-19 hefur tekist að halda starfi skólans nánast óbreyttu þær tvær annir sem faraldurinn hefur geisað.

„Þetta hefur tekist hjá okkur vegna þess að við lifum sem ein fjölskylda. Nemendur búa saman og tilheyra því sama sóttvarnahólfi,“ segir Björt. Um sautján nemendur sækja skólann á hverri önn, ásamt tveimur starfsnemum og um fjórum einstaklingum sem dvelja þar í listamannadvöl. „Í eðlilegu árferði fáum við til okkar tólf til fimmtán gestakennara en núna höfum við nýtt það góða fólk sem er hér í bænum í meira mæli,“ útskýrir Björt.

„Nemendurnir búa saman á Haföldunni, fallegasta farfuglaheimili í heimi, og þar eiga þau öll sitt herbergi en deila eldhúsi og sameiginlegum rýmum, svo deila þau með sér verkum,“ segir Björt. Í skólanum er nemendum, sem eru á aldrinum 18-36 ára, kennd lífsfærni í gegnum skapandi hugsun. Þau fá að kynnast hinum ýmsu listformum og tækni en Björt segir skólastarfið alls ekki hefðbundið.

Þetta hefur tekist hjá okkur vegna þess að við lifum sem ein fjölskylda.

„Skólinn hættir ekki klukkan fjögur heldur fer mikið af lærdómnum fram eftir að skipulögðu skólastarfi lýkur,“ segir hún. „Þau læra mikið á því að búa saman því þarna er komið saman mikið af fólki með ólíkan bakgrunn og á ólíkum aldri, þau taka ábyrgð á heimilishaldinu og læra hvert af öðru allan sólarhringinn,“ bætir Björt við.

Þá segir hún faraldurinn hafa haft ýmiss konar áhrif á skólahaldið þrátt fyrir að ekki hafi verið mikið um breytingar. „Við erum vön að halda sýningar og bjóða nærsamfélaginu í heimsókn en núna höfum við haldið okkur út af fyrir okkur. Svo hafa einhverjir nemendur þurft að hætta við,“ segir hún.

Vanalega eru um 40 prósent nemenda í skólanum Íslendingar en 60 prósent erlendir ríkisborgarar, í ár hefur skiptingin verði jöfn, helmingur frá Íslandi og helmingur erlendur.

„Faraldurinn hefur ekki breytt miklu í aðsókn að utan. Við erum náttúrulega hér á Seyðisfirði þar sem ekkert smit hefur greinst og miðað við restina af heiminum erum við mjög heppin,“ segir Björt.

Hún segir nánast alla þá erlendu nemendur sem stunduðu nám við skólann á vorönn hafa ílengst á Íslandi. „Þau ákváðu öll að vera hérna að minnsta kosti mánuði lengur og sum eru hér enn því að þeim finnst öruggara að vera hér,“ segir hún.