Skólahald í Flataskóla í Garðabæ verður fellt niður vegna rakaskemmda til 8. febrúar til að tryggja öryggi nemenda. Mygla fannst í húsnæði skólans í desember síðastliðinn í rýmum frístundaheimilisins og kennslustofu Tónlistarskóla Garðabæjar.
Í pósti sem barst til forráðamanna nemenda í 1 til 7. bekkjar skólans kemur fram að niðurstöður úr flestum sýnum sem tekin voru vegna rakaskemmda í skólanum bárust seinnipartinn í dag. Því hefur verið ákveðið að loka nokkrum skólastofum og kennaraaðstöðu vegna rakaskemmda.
Einnig kemur fram að niðurstöður DNA ryksýna í skólanum hafi komið almenn vel út og hægt verður að ráðast í minni viðgerðir á nokkrum stöðum fljótlega. Aðrar nauðsynlegar viðgerðir muni hins vegar verða umfangsmeiri og taka lengri tíma.
Lokun skólans er gerð í samráði við bæjarskrifstofu Garðabæjar, til þess að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks og til að endurskipuleggja skólastarfið. Ljóst er að loka þarf ákveðnum álmum í skólanum í óákveðinn tíma.
„Um leið og við þökkum ykkur fyrir skilning og góð samskipti við þessar flóknu aðstæður gerum við okkur grein fyrir því að þetta er talsvert inngrip inn í líf nemenda, en við erum sannfærð um að við komumst í gegnum þetta með samhentu átaki allra þeirra sem starfa og læra í Flataskóla,“ segir í pósti til forráðmanna.