Öllu skóla­haldi í grunn­skólanum á Djúpa­vogi hefur verið fellt niður á morgun. Sveitar­stjóri Múla­þings segir út­lit fyrir að veðrið haldi á­fram fram eftir morgun og því hafi verið leyft börnunum að njóta vafans.

„Út­litið er þannig að það verði mjög slæmt veður þannig að það yrði hvort eð er mjög erfitt að sinna skóla­rekstri og síðan í og með að þarna eru efa­semdir um að þetta geti orðið í lagi og þá viljum við bara láta börnin njóta vafans og þá var á­kveðið að fella niður skóla­hald á morgun,“ segir Björn Ingi­mars­son í sam­tali við Frétta­blaðið.

Engar stærri upp­á­komur orðið

Þá segir Björn að engar stærri upp­á­komur hafi enn orðið. „Okkar starfs­fólk hefur verið að fara vel yfir málin, sér­stak­lega varðandi hafnirnar. Menn hafa verið að fara og bæta festingar og yfir­fara þær.“

„Ég veit að það losnaði bátur frá í smá­báta­höfninni í Seyðis­firði í morgun en það tókst að bjarga því fljótt,“ segir hann.

Þá hrundi svo­kallað Angró-hús á Seyðis­firði í morgun. Lög­reglan á Austur­landi hefur varað við miklu braki sem fýkur frá húsinu og beðið fólk um að vera ekki á ferðinni á þeim slóðum.

„Þetta er hús sem við höfum verið að horfa til að endur­byggja á öðrum stað og það greini­lega hefur ekki þolað þetta átak. Við reiknum með að koma saman á morgun og skoða það á­samt sér­fræðingum minja­stofnunar við hvernig þessu verður brugðist,“ segir Björn.

Mynd frá desember árið 2020 þegar Angró-húsið varð fyrir aurskriðu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Veður­hæðin mest með ströndinni

Björn, sem sjálfur er staddur fyrir sunnan, segist hafa verið í stöðugu sam­bandi við fólk fyrir austan í dag „bæði niðri á Djúpa­vogi, Seyðis­firði og á Borgar­firði.“ Björn veður­tepptist fyrir sunnan eftir að flugum var af­lýst vegna veðurs.

„Veður­hæðin er mest með ströndinni. Þetta er mun minna þegar það kemur upp á hérað, en hins vegar var í rauninni lokað fyrir allan akstur yfir bæði Fjarðar­heiðina, Öxi, Fagra­dalinn og Ör­ævin og Vatns­skarðið.“

Hann segir horfur á því að þetta standi fram eftir morgun og því hafi verið teknar við­eig­andi ráð­stafanir með skóla­hald.

Mikið hefur verið um lokanir vegna veðurs en á myndinni hér að neðan má sjá kort frá Vega­gerðinni sem sýnir lokanir vega á Austur­landi þegar klukkan var farin að ganga sex. Hægt er að sjá færð vega með því að smella hér.

Mynd/Vegagerðin