Skógræktarfélag Íslands leggur til við stjórnvöld að að koma á vörslukyldu búfjár og banni við lausagöngu sauðfjár í öllum þjóðgörðum hér á landi. Félagið hefur lengi barist fyrir því að sauðfé fari af illa förnu landi á hálendi landsins.

Á síðasta aðalfundi Skógræktarfélagsins, sem haldinn var í Kópavogi um síðustu helgi, var þessi ályktun samþykkt og sköpuðust um tillöguna nokkrar umræður. Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, segir mikilvægt að sauðfé sé haldið innan girðinga á vel grónu landi.

„Við höfum sent áður svipaðar tillögur til stjórnvalda. Hins vegar hnykkjum við nú á þjóðgörðunum í fyrsta skipti. Lausaganga búfjár innan þjóðgarða stingur í stúf við aðrar áætlanir ríkisstjórnarinnar um loftslagasmál og ef mennætla að byrja einhversstaðar þá væri þjóðgarðar landsins ágætis byrjun,“ seir Brynjólfur.

Brynjólfur nefnir að til séu bændur sem haldi fé innan sinna girðingar í heimalöndum og setji féð ekki á fjall þar sem jarðvegur er viðkvæmari fyrir grasbítum sem þessum. Hann segir þessa iðju ekki hafa tíðkast hér fyrr á öldum heldur sé þetta siður sem sé aðallega frá síðustu öld. „Áður fyrr voru smalar með hjarðið og fyrr á öldum gekk féð ekki sjálfala upp um allar heiðar. þetta er seinni tíma vandamál, á 20. öldinni fóru menn að haga sér svona,“ segir Brynjólfur.

Ein ástæða þess að skógræktarfélagið sendi ályktun sem þessa er að skógarbændur þurfa sjálfir að girða land sitt til að verjast ágangi búfénaðar sauðfjárbænda. Um fimmtungur alls sauðfjár hér á landi er rekið upp á heiðar og því væri að mati Brynjólfs hægt að halda þessu fé á láglendi. „Að okkar mati er ábyrgðinni varpað yfir á aðra en eigendur dýranna. Skógarbændur þurfa að fara í ærinn kostnað til að verja sig frá sauðfé annarra. Það þarf svo að viðhalda þessu og það er mikill kostnaður sem fylgir þessu,“ bætir Brynjólfur við. „Við að halda fé á beit á láglendi myndi sjálfgræðsla hefjast á hálendinu og gróðurframvinda aukast. Við erum að berjast við stöðuga losun af kolefni á hálendinu þar sem þar eru víðáttumiklar eyðimerkur og melar.“

Óskað var viðbragða Guðfinnu Hörpu Árnadóttur, formanns landssamtaka sauðfjárbænda, við þessum hugmyndum skógræktarmanna án árangurs.