Skógræktarstöðvar á Íslandi hafa ekki lengur undan við framleiðslu á plöntun til nýræktunar og keppist Skógræktin nú við að fá einkafyrirtæki til að hefja starfsemi á þessu sviði.

Þetta segir Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri en hann horfir fram á umskipti á sínu sviði á næstu árum. Þrjár milljónir skógarplantna voru framleiddar um og upp úr hruni, en á síðustu þremur árum hefur ræktunin tvöfaldast. Á næsta ári mun Skógræktin ein framleiða sex milljónir plantna og vonast er til að einkaaðilar rækti eina til tvær milljónir plantna til viðbótar á ári. Út áratuginn er svo áætlað að plöntuframleiðslan muni aukast um allt að tvær milljónir á ári og fari í 20 milljónir plantna í lok hans.

„Framleiðslugetan er löngu fullnýtt og nú þarf að spýta í lófana,“ segir Þröstur, en ræktunin fari nú að langmestu leyti fram hjá Sólskógum í Kjarnaskógi við Akureyri og í Kvista­bæ í Reykholti á Suðurlandi.

„Núna heitum við á einkaaðila að hefja ræktun,“ bætir hann við og kveðst vongóður. „Ég veit um tvo aðila sem eru að skoða fjármögnun og staðsetningu,“ segir skógræktarstjóri og vonast til að einkageirinn taki vel við sér.

Aðstæður eru enda gjörbreyttar – og þar vegur þrennt þyngst. „Í fyrsta lagi eru stjórnvöld að setja stóraukið fjármagn í málaflokkinn vegna stefnu sinnar í loftslagsmálum,“ bendir Þröstur á, en í öðru lagi horfi fyrirtæki nú fram í tímann. „Forkólfar þeirra vita að þau verða krafin um kolefnisjöfnuð á næstu árum,“ segir Þröstur og nefnir sjávarútvegsfyrirtækin sérstaklega. „Þau ryðja slóðann, enda vita menn á þeim bænum að allur fiskur á Evrópumarkaði þarf ekki bara að vera sjálfbærnivottaður heldur mun líka verða gerð krafa um að hann verði kolefnisjafnaður.“

Í þriðja lagi muni einkaaðilar huga að skógrækt til að selja kolefniseiningar í grænt bókhald fyrirtækja um allan heim. „Þetta er að verða valkvæður markaður um allan heim og því geta menn keypt sér kolefnisjöfnun hvar sem þeim sýnist,“ segir Þröstur.

En á þessu mikla uppvaxtarskeiði sem fram undan er vaknar spurningin hvort Íslendingar þurfi að fara að flytja inn skógarplöntur, slíkur sem skorturinn er á þeim orðinn. „Við útilokum ekki slíkt, þótt við viljum forðast óværuna að utan sem á stundum fylgir innfluttum plöntum. En þess þá heldur að einkageirinn hér á landi taki við sér,“ segir Þröstur Eysteinsson.