Ítalskir skógarverðir eru nú á höttunum eftir birninum M49 sem hefur verið lýst sem „flóttasnillingi.“ Umræddur björn klifraði yfir þrjár rafmagnsgirðingar og fjögurra metra háan tálma, sem umlykur verndarsvæði fyrir villt dýr, áður en hann hvarf inn í skóg í Trentino héraði.

Flúði tvisvar í einum mánuði

Björninn M49, sem vegur tæplega 150 kíló, slapp fyrst fyrir mánuði síðan en náðist síðastliðinn sunnudag eftir að hafa sést nokkrum sinnum nálægt mannabyggðum. Klukkutímum eftir að hafa náðst tókst birninum hins vegar að sleppa í annað sinn.

Gaf fyrirskipun um að skjóta M49

Héraðsstjóri Trentino, Maurizio Fugatti, sem hafði upprunalega gefið skipun fyrir föngun bjarnarins fyrir mánuði, gaf fyrirskipun á mánudaginn um skógarverðir mættu skjóta björninn ef hann nálgaðist mannabyggðir.

„Ef M49 nálgast byggðasvæði hafa skógarverðir leyfi til að að skjóta hann.“ Fugatti bætti við að sú staðreynd að björninn hafi klifrað yfir sjö þúsund volta rafmagnsgirðingu sýndi fram á að hans tegund ógnaði öryggi almennings.

Fáránleg fyrirskipun

Umhverfisráðherra Ítalíu, Sergio Costa, gagnrýndi héraðsstjórann fyrir skort á fagmennsku í málefnum M49 og sagði fyrirskipunina um að drepa bjarndýrið vera „fáránlega.“

Náttúrulífssamtökin WWF á Ítalíu gerðu gys af tilraunum héraðsins til að hafa hemil á birninum og tóku fram að rafmagnsgirðing með viðeigandi straum væri næg hindrun fyrir allra slungnustu birni. „Augljóslega virkaði girðingin ekki almennilega þar sem birnir geta ekki flogið.“