Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar, segir í sam­tali við Ríkis­út­varpið að TF-GRÓ, þyrla Land­helgis­gæslunnar sem undir­gengst nú reglu­bundna skoðun, verði ekki til­búin á morgun líkt og gert var ráð fyrir.

Líkt og greint var frá í gær­kvöldi sam­þykkti Al­þingi stjórnar­frum­varp dóms­mála­ráð­herra um stöðvun verk­falls flug­virkja hjá Land­helgis­gæslunni en neyðar­á­stand hafði skapast vegna verk­fallsins.

Verkfallið hafði staðið yfir frá 5. nóvember og náði til sex af átján flugvirkjum Gæslunnar. Nýta átti þá flugvirkja sem ekki eru í verkfalli til sinna viðhaldi. Önnur þyrla Gæslunnar, TF-EIR, átti að fara í skoðun en tókst það ekki vegna verkfallsins.

Ás­geir greindi frá því í sam­tali við Frétta­blaðið í gær að öll loft­för Gæslunnar væru ó­flug­hæf til sunnu­dags en nú liggur fyrir að það dragist fram til mánu­dags. Ljóst hafi verið að Gæslan yrði þyrlulaus óháð verkfallinu þar sem mikið var um uppsafnaða viðhaldsþörf.

Ekki margir möguleikar ef kall um aðstoð berst

„Það hefur verið unnið í þyrlunni síðan fyrir helgina og síðan í morgun hefur verið full­mönnuð vakt. Þetta er heldur um­fangs­meira en búist var við og oft erfitt að meta hversu langan tíma svona skoðanir taka,“ sagði Ás­geir í sam­tali við RÚV í dag.

Þá bætti hann við að það væri ekkert ó­eðli­legt við það að skoðunin taki langan tíma.

Að­spurður um hvað gerist ef þörf er á að­stoð þyrlu gæslunnar um helgina sagði Ás­geir að mögu­leikarnir væru ekki margir en hægt væri að nýta varð­skip gæslunnar, sem eru tvö, auk þess sem litið væri til björgunar­sveita í auknum mæli.