Lyfja hefur óvirkjað hluta af smáforriti sínu í kjölfar þess að Lyfjastofnun og Embætti landlæknis hófu skoðun á því. Segir sviðsstjóri hjá Lyfju að skoðunin komi á óvart.Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá er nú hægt að veita þriðja aðila umboð til afhendingar lyfja í gegnum vefinn Heilsuveru og var appið með virkni sem veitti sams konar umboð.

Fram kemur í tilkynningu á vef Landlæknis að tilefni skoðunarinnar sé að þetta sé í fyrsta sinn sem þjónustan sé veitt hér á landi. Þá er vakin athygli á hluta skilmála smáforritsins, en þar segir að umboðin sem bæði er hægt að veita og nálgast í smáforritinu gildi aðeins í verslunum þess apóteks sem að baki því stendur. Á vef embættisins er svo bent á að umboð sem hægt er að veita í sama tilgangi á heilsuvera.is gildi hins vegar í öllum apótekum landsins.

Embættið vildi ekki tjá sig frekar um athugunina.Í svari við fyrirspurn um hvort hægt sé að veita umboð með öðrum hætti en í gegnum Heilsuveru segir að sú lausn sé sú öruggasta. „Hins vegar eiga apótek að taka við pappírsumboðum frá þeim sem ekki eru með rafræn skilríki og ættu það að vera undantekningartilfelli,“ segir í svari Embættis landlæknis.

Guðmundur H. Björnsson, sviðsstjóri stafrænnar þróunar og markaðsmála hjá Lyfju, segir að umboðslausnin sé hugsuð til þess að hjálpa aðstandendum þeirra sem eiga erfitt með að kaupa og fá afhent lyf. Eru þá lyfin keyrð heim.

„Umboðslausnin sem embættin kynntu á dögunum og er að finna á heilsuvera.is er góð en hún krefst þess að fólk þurfi að fara í næsta apótek til að ná í lyfin og það er ekki alltaf á færi allra. Með Lyfju-appinu er þetta flókna ferli einfaldað til muna og okkur þótti mjög vænt um að sjá Alzheimersamtökin fagna þessari nýjung,“ segir Guðmundur.

„Við ákváðum að gera umboðslausnina í appinu óvirka tímabundið á meðan samtalið við stofnanirnar fer fram, það gerum við af virðingarskyni við Embætti landlæknis og Lyfjastofnun en við höfum átt í samskiptum við báðar stofnanir vegna þróunar appsins í rúmt ár, til þess að tryggja að allt verði eins og best verður á kosið, þessi tilkynning kemur okkur því verulega á óvart.“