„Nauðsynlegt er að gera svipað átak í skriðumálum á Íslandi og gert var í snjóflóðamálum eftir 1995,“ segja vísindamenn frá Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóla Íslands.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem vísindamennirnir gerðu fyrir starfshóp á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Hópurinn var meðal annars skipaður til að gera stöðumat á vöktun og rannsóknum á náttúruvá eftir skriðuföllin á Seyðisfirði í desember 2020.

Tómas Jóhannesson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að við ellefu þéttbýlisstaði séu landform sem kanna þurfi með tilliti til hreyfingar á lausum jarðefnum. Ef hreyfingar í jarðvegi komi í ljós gefi það tilefni til árvekni. 

Breytingar í náttúru samhliða lofslagsbreytingum

„Við megum eiga von á því að það verði breytingar í náttúru Íslands á komandi árum, samhliða loftslagsbreytingum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Stjórnvöld hafi beint sjónum að náttúruvá.„Við þurfum að meta vandlega hvaða áhrif breytingar sem eru að eiga sér stað hafa á náttúruvá, viðbrögð við henni og varnir þar að lútandi,“ segir ráðherrann. Litlu mátti muna að stórslys yrði er stóra skriðan féll í Seyðisfirði og eyðilagði mörg hús.

„Þessi atburður og fleiri stórar skriður sem fallið hafa á síðustu árum sýna að nauðsynlegt er að vinna að rannsóknum, kortlagningu, hættumati og bættri vöktun vegna skriðufalla,“ segir í minnisblaðinu.

Tilgreindir eru ellefu þéttbýlisstaðir vegna mögulegra skriðufalla. Það eru Ísafjörður, Suðureyri, Bíldudalur, Patreksfjörður, Bolungarvík, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Akureyri, Neskaupstaður, Eskifjörður og Fáskrúðsfjörður.

Myndin sýnir þá ellefu þéttbýlisstaði þar sem möguleg skriðuhætta er.
Mynd/Fréttablaðið

Vísindamenn segja hættu við ferðamannastaði

Vísindamenn Veðurstofunnar, Náttúrufræðistofnunar og Háskóla Íslands leggja til í minnisblaði að „óstöðugar hlíðar verði skráðar í gagnasafn, kortlagðar gróflega og þeim forgangsraðað eftir því hvernig hættan er metin“, eins og segir í minnisblaðinu sem unnið var fyrir starfshóp á vegum umhverfisráðuneytisins.

„Í efsta forgangi eru óstöðugar hlíðar yfir þéttbýli og þar á eftir hlíðar sem ógna byggð í dreifbýli, ferðamannastöðum eða vegum,“ segir í minnisblaðinu.

Vísindamennirnir benda einnig á að margir af vinsælustu ferðamannastöðum landsins séu á svæðum þar sem hætta geti verið á grjóthruni og skriðum. Þetta er til dæmis við Gullfoss, Seljalandsfoss, Dyrhólaey, Reynisfjöru, Sólheimajökul, Stuðlagil og Öskju.

Hlýnun á Íslandi áköf

„Ráðuneytið hefur því þessi mál ávallt til skoðunar og sérstakur starfshópur um málefnið hefur verið starfandi frá því í vor. Í vinnu hópsins verður meðal annars litið til minnisblaðsins auk margra fleiri þátta,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlinda­ráðherra.

Samkvæmt skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá 2018 var hlýnun á Íslandi mjög áköf. Frá 1980 til 2015 hafi hlýnunin numið 0,47 gráðum á Celsíus á áratug og talið er að hlýnun á norðurskautssvæðum geti orðið með mesta móti á heimsvísu