Tveir fulltrúar meirihlutans í Reykjavík segja niðurstöður nýrrar könnunar Prósent fyrir Fréttablaðið um kosningar í borginni sýna mikinn meðbyr með bæði þeirra flokkum og með meirihlutanum. Þau segja bæði skoðanakannanir ekki það sama og niðurstöðu kosninga og ítreka mikilvægi þess að mæta á kjörstað.
„Könnunin sýnir byr í báða vængi og hún er sterk fyrir meirihlutann og Samfylkinguna. Ég hef hins vegar séð háar tölur í aðdraganda kosninga sem ekki skila sér í kjörkassana og ég brýni því fyrir okkar góða stuðningsfólk, sem hefur staðið sig mjög vel í baráttunni, að láta ekki deigan síga og að halda áfram að tala okkur máli. Það þarf að tryggja að allt okkar stuðningsfólk sem ætlar í bústað um helgina eða eitthvað annað skili sér í utankjörfund í Holtagörðum fyrir helgi,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, en flokkur hans er samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar stærstur í borginni með 26,7 prósent atkvæða.
„En skoðanakannanir eru eitt og kosningar annað.“
Já, það er auðvitað Eurovision á laugardag og margt annað í gangi sem getur haft áhrif á kosningu.
„Já, við finnum að það er vor í lofti og mikil stemning og auðvelt að gleyma sér jafnvel þótt að maður átti sig á því að kosningarnar eru mjög mikilvægar.“
Ég hef hins vegar séð háar tölur í aðdraganda kosninga sem ekki skila sér í kjörkassana
Meirihlutinn bætir við sig en hlutföllin breytast því að Viðreisn er að tapa manni til dæmis. Breytir þetta einhverju fyrir meirihlutann, hvernig hann vinnur?
„Þessi meirihluti hefur unnið saman sem einn maður óháð stærð flokkanna. Það byggir á gagnkvæmri virðingu og sjónarmiðum hvors annars. Þetta er grundvöllurinn að góðum samskiptum alls staðar og er kannski sérstaklega mikilvægt í stjórnmálum finnst mér. Ég á ekki von á því að þessi góði grunntónn breytist þótt svo að fylgið breytist eitthvað, en eins og ég segi þá er ekki búið að kjósa og það er ekki hægt að gefa sér að þetta verði niðurstaða kosninganna,“ segir Dagur og að núna sé mikilvægast fyrir alla að vinna vel fram að kosningum og að fylgja þessum byr eftir.
Oddviti Pírata tekur undir orð Dags.
„Það er gott að finna þennan dásamlega meðbyr. Það er stemning fyrir heiðarleika, ég kann að meta það,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, en flokkur hennar er samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar annar stærsti flokkurinn í borgarstjórn og bætir við sig tveimur fulltrúum frá síðustu kosningum og er alls með 17,9 prósent atkvæða.
„Við höfum skilað gríðarmiklum árangri á kjörtímabilinu innan margra málaflokka og sýnt að við erum traustsins verð. Píratar standa fyrir og stunda heiðarleg stjórnmál, það skiptir máli að hafa sterka rödd Pírata innan borgarstjórnar,“ segir Dóra en áréttar að könnun er ekki það sama og niðurstaða kosninga.
„En könnun er bara könnun. Það sem gildir er það sem kemur upp úr kjörkössunum á laugardag. Ef þú kýst ekki kýs bara einhver annar fyrir þig. Þú þarft ekki að vita allt um pólitík til að kjósa. Taktu afstöðu byggt á þínu innsæi,“ segir hún að lokum.