Íbúar í Ásahreppi kolfelldu tillögu um sameiningu fimm sveitarfélaga á Suðurlandi í kosningu sem fram fór samhliða alþingiskosningum um helgina. Hin sveitarfélögin fjögur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur, samþykktu tillöguna. Fundað verður í dag um framhaldið.

„Þessu verkefni er lokið. Það var kveðið á um að öll sveitarfélögin fimm í þessu verkefni þyrftu að samþykkja sameininguna,“ segir Anton Kári Halldórsson, formaður samstarfsnefndar um Sveitarfélagið Suðurland og oddviti Rangárþings eystra.

Aðeins 159 eru á kjörskrá í Ásahreppi, tillagan var felld og var þetta eina sveitarfélagið sem felldi tillöguna. „Nú þurfum við að setjast niður og meta stöðuna, hvort það séu forsendur fyrir því að hefja nýjar viðræður með þeim fjórum sveitarfélögum sem samþykktu sameiningu.“

Anton Kári segir að ef það sé vilji hjá sveitarfélögunum fjórum til að halda áfram þá muni það ekki taka langan tíma.

„Öll gögnin eru fersk og til staðar. Ég tel að það ætti ekki að blanda þessu saman við sveitarstjórnarkosningar, ef það er vilji þá ættum við að stefna að því að kjósa í janúar eða febrúar á næsta ári þannig að við höfum tíma til að undirbúa okkur fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram í maí.“

Hann segir að það hafi komið á óvart hversu afgerandi niðurstaðan var í Ásahreppi. „Ég met það þannig að þótt Ásahreppur fari út þá hafi það ekki úrslitaáhrif á tillöguna í heild, þetta er minnsta sveitarfélagið sem tók þátt.“