Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í kvöldfréttum í kvöld að til greina kæmi að rifta nýgerðum kjarasamningum.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun hefur Efling krafist fundar með framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Halldóri Benjamín Þorbergssyni vegna vanefnda á nýundirrituðum kjarasamningi. Þetta hefur Efling gert vegna hópuppsagnar hótelstjórans Árna Vals Sólonssonar á launakjörum starfsfólks síns eftir samþykkt kjarasamninganna. Í uppsagnarbréfinu kemur fram að þetta sé til að „lækka launakostnað“ vegna „væntanlegs kostnaðarauka“ sem hlýst af kjarasamningum.

Árni Valur stýrir CityPark, CityCenter og CapitaliInn hótelunum og eru þau hluti af Samtökum atvinnulífsins. „Miðstjórn ASÍ lýsti því yfir í kjölfarið að stéttarfélögum væri áskilinn réttur til að rifta kjarasamningum gagnvart þeim atvinnurekendum sem ekki virtu þá sem samið hefur verið um. Þar með væru lögmætar þvingunaraðgerðir á borð við verkföll í spilinu.“

Haft er eftir framkvæmdastjóra Eflinga á vef félagsins að uppsagnirnar séu sem blaut tuska í andlitið, að fella niður kjör sem starfsmenn hafa notið. „Það er engu líkara en verið sé að refsa félagsmönnum fyrir að hafa samið um launahækkun.“

Sólveig Anna sagði í kvöldfréttum RÚV að Samtök atvinnulífsins ættu láta sína félagsmenn vita að svona framkvæma væri með öllu ólíðandi. Að öðrum kosti væri aðeins það eitt í stöðunni að rifta samningum. „Annað hvort láta SA sína félagsmenn vita af því að svona framkoma sé með öllu ólíðandi og tryggja einmitt að það sé hægt fyrir okkur sem samningsaðila að geta treyst því að orð standi eða þá já, að við höfum þá ekkert annað í stöðunni að gera,“ sagði hún á RÚV.