Bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkti í vikunni að vísa erindi Theodóru S. Þorsteinsdóttur, bæjarfulltrúa Viðreisnar, um að skoða kosti þess að flytja Menntaskólann í Kópavogi í Smárann, til frekari rýni bæjarstjóra. Theodóra lagði til viðræður við skólann sem fagnar fimmtíu ára afmæli á næsta ári og mennta- og menningamála­ráðuneytið um málið. Fyrr á þessu ári óskaði skólinn eftir nýju íþróttahúsi en Theodóra segir að þarna sé hægt að slá tvær flugur í einu höggi.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir.

„Við stöndum frammi fyrir nokkrum áskorunum. Við erum með afreksbraut í íþróttum sem þarf á íþróttahúsi að halda. Valkostagreining um legu Borgarlínunnar gefur til kynna að það henti betur að fara eftir Hafnarfjarðarvegi og Fífuhvammsvegi frekar en Digranesveg. Þó að það heyrist gagnrýnisraddir um Borgarlínuna, þá eru margir sem vilja fá hana, sérstaklega stofnanir eins og skólar, íþróttafélög og verslunarmiðstöðvar. Með þessu værum við að slá tvær flugur í einu höggi,“ segir Theodóra í samtali við Fréttablaðið, aðspurð um hugmyndina.

Í tillögunni er fullyrt að þarna væri hægt að taka næstu skref í að þróa starfsemi skólans ásamt því að stórefla íþrótta- og útivistarsvæði í Kópavogsdal með aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir og aðlaga knattspyrnuvöllinn að alþjóðlegu leyfiskerfi Evrópska knattspyrnusambandsins.