Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, sagði í Morgunút­varpinu á Rás 2 að það ríkis­stjórnin hafi skoðað nýja reglu­gerð um út­flutning bólu­efna um leið og hún var birt í gær. Katrín sagði einnig að það væri verið að skoða hvort hægt væri að fá Spút­nik bólu­efni Rússa og að yfir­völd eigi í við­ræðum við fram­leið­endur um að fá meira bólu­efni til Ís­lands. Hvað varðar tak­markanir sem tóku gildi á mið­nætti sagði Katrín að veiran herjaði nú á nýjan hóp og það væri mikil­vægt að verja hann. Yfir­völd vonist til þess að með því að stíga fast til jarðar núna muni þrjár vikur nægja.

Katrín talað við Ur­sulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórar Evrópu­sam­bandsins, sem sagði henni að ný reglu­gerð sem sam­bandið sendi frá sér í gær myndi ekki hafa á­hrif á af­hendingu bólu­efna til Ís­lands frá aðildar­löndum ESB.

„En við gerum auð­vitað kröfu um að þessari reglu­gerð verði breytt og höfum sett hana fram í skýrum skila­boðum,“ sagði Katrín og sagði að það væri sett fram í þeirra kröfum að Ís­land verði undan­skilið reglu­gerðinni.

Yfir­völdum munu funda í dag með for­svars­fólki sam­bandsins og Katrín segir að þeim finnist skila­boðin skrítin til bæði þeirra og til Norð­manna. Þau telji að þetta sé brot á EES-samningi og vita ekki af hverju löndin eru ekki tekin með.

En Katrín sagði að það væri skýrt í öllum skila­boðum að reglu­gerðinni væri ekki beint að Ís­landi eða Noregi og taldi lík­legra að reglu­gerðinni væri beint að Bretum en að mikil tog­streita hefur verið á milli Breta og Evrópu­sam­bandsins síðan Bret­land gekk úr Evrópu­sam­bandinu.

Vongóð um að skólar opni eftir páska

Katrín ræddi nýjar að­gerðir sem tóku gildi á mið­nætti sem eru þær hörðustu í um eitt ár. Katrín sagði að hún ætti von á því að skóla­hald hefjist eftir páska og páska­fríið byrji þannig snemma. Þannig nái skólarnir að skipu­leggja sig með fjölda­tak­mörkunum

„Það er vegna þess að við sjáum að þetta af­brigði veirunnar er að leggjast á börn og ung­menni,“ sagði Katrín og tók fram að það sama gildi ekki um leik­skóla því sótt­varna­læknir geri ekki kröfu um það með þeim rökum að af­brigðið leggist ekki eins á ung börn.

Hún stað­festi að það væru smit í Hlíða­skóla og Vestur­bæjar­skóla og að þess vegna hefði verið á­kveðið að stíga fast til jarðar. Hún sagði að það yrði kynnt fyrir lok páska hvernig skóla­hald getur farið fram eftir páska.

Það vissu allir af þessum afbrigðum í kring

Spurð hvort þetta væri von­brigði sagði Katrín þetta vera það en að yfir­völd hafi á­vallt vitað að CO­VID væri ekki á­taks­verk­efni. Hún sagði að heilt yfir hafi þetta gengið vel hér. Við værum búin að komast að því hvað gangi upp og þó svo að þetta séu von­brigði þá hafi allir vitað af af­brigðum hér í kring sem gætu komið.

Hún sagðist ekki sam­mála því að það hefði átt að loka landa­mærunum en það væri verið að skoða aðrar út­færslur á landa­mærunum. Hún sagði að fram­vinda bólu­setninga hafi mikil á­hrif á þróun á landa­mærum.

Spurð út í þróun bólu­setningar sagði Katrín að þau hefðu á­kveðið að fara í sam­starf við Evrópu­sam­bandið og hún telji það enn rétta á­kvörðun. Þau væru með marga lyfja­fram­leið­endur í sigtinu og að sam­starfið hafi falið í sér að semja um þróun þeirra og fram­leiðslu þeirra.

Hún sagði það þó stað­reynd að af­hendingin gangi hægar en hafði verið lofað og að það sé ekki bara gagn­rýnt hér á landi.

„Hún er alls staðar í Evrópu,“ sagði Katrín.

Skoða Spútnik

Hún sagði að þau hefðu ekki bara skoðað þetta verk­efni og nefndi Pfizer-verk­efnið sem var reynt að taka þátt í og að heil­brigðis­ráðu­neytið væri í við­ræðum við Rússa um Spút­nik bólu­efnið en að það hangi á því að lyfið fái markaðs­leyfi hjá Lyfja­stofnun Evrópu.

„Það er ein af for­sendunum fyrir því að þetta geti gengið,“ sagði Katrín sem sagði að þau myndu aldrei kaupa bólu­efni sem ekki upp­fyllir öll skil­yrðin.

Hún sagði að það væri verið að kanna mögu­leika á því að semja beint við Rússa og að það væri verið að skoða mögu­leika á að semja beint við fram­leið­endur bólu­efnanna.

Hún í­trekaði að á­ætlunin sem hefur verið kynnt stenst enn fyrir utan tafir á AstraZene­ca.

Spurð hvort þetta væri klúður sagði Katrín að það hefði aldrei verið lofað að klára bólu­setningu allra um mars og að það stæði enn að það yrði búið að bólu­setja alla um mitt ár.

Hún sagði að við værum lítil þjóð og það hefði því verið eðli­legt að festa sig við aðrar þjóðir eins og við gerðum.

„Ég held að þetta hafi verið skyn­sam­leg á­kvörðun í upp­hafi en ég hef orðið fyrir von­brigðum um hversu hægt þetta hefur gengið,“ sagði Katrín.

Hægt er að hlusta á allt við­talið hér á vef RÚV.