Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir enga ákvörðun hafa verið tekna um að hætta starfsemi meðferðarheimilisins á Laugalandi.
Rekstraraðili heimilisins hafi sagt upp samningi sínum og nú sé verið að skoða hvernig sér hægt að halda úrræðinu áfram.
„Þetta er þannig að í kringum áramótin tilkynnir rekstraraðilinn sem heldur þessari stofnun gangandi að hann vilji segja upp úrræðinu og hætta starfsemi. Það er þá sem við fáum þetta í fangið, Barnaverndarstofa og ráðuneytið,“ segir Ásmundur.
„Við erum á fyrstu metrunum í því að fara yfir hvað verður gert. Það er ekki búið að taka ákvörðun um framhaldið,“ bætir hann við.
Ásmundur Einar mun funda í dag með starfsfólki Laugalands að þeirra beiðni en starfsmenn hafa sent áskorun á Ásmund og Heiðu Björg Pálmadóttir, forstjóra Barnaverndarstofu um að finna leið til að halda starfseminni gangandi.
„Ég ætla síðan að fara norður og hitta alla hlutaðeigandi. Við erum síðan að hafa samband við barnaverndarnefndirnar því það eru þær sem eru að nýta úrræðið,“ segir Ásmundur.
Fyrrum skjólstæðingar meðferðarheimilisins Laugalands og aðstandendur opnuðu í dag vefsíðu þar sem þau deila frásögnum sínum um hvernig meðferðarheimilið bjargaði lífi þeirra. Markmið síðunnar er að hvetja yfirvöld til þess að halda starfseminni áfram.
Hafa sex mánuði til að finna lausn
Meðferðarheimilið Laugaland í Eyjafirði hefur verið rekið af félaginu Pétri G. Broddasyni ehf. í meira en áratug. Rekstraraðilar sögðu samningnum sínum upp við ríkið af persónulegum ástæðum.
„Það var vilji til að framlengja samninginn af okkur hálfu. Við höfum í rauninni sex mánuði. Samningnum er sagt upp 1. janúar og það eru sex mánuðir, þannig við erum á fyrstu metrunum að fara yfir málið,“ segir Ásmundur.
Ásmundur segir fyrsta verkefnið sé að heyra í þeim sem kaupa þjónustuna þ.e. barnaverndarnefndum og félagsþjónustur í sveitarfélaganna. Barnaverndarstofa, í samstarfi við ráðuneytið, hefur nú þegar byrjað að hafa samband við viðeigandi aðila.
Ánægja með starfsemi Laugalands
Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, tekur í sama streng og Ásmundur og segir það of snemmt að segja til um hvað verður um starfsemi Laugalands. Hún segir að það hafi alltaf verið ánægja með Laugalands.
Barnaverndarstofa mun funda með sveitarfélögunum í næstu viku. „Við erum að fara yfir stöðuna með sveitarfélögunum og ráðuneytinu. Við erum líka skoða þarfir þeirra barna sem okkur ætlað að þjónusta,“ segir Heiða.
„Við metum svo fjárhagslegar og faglegar forsendur fyrir áframhaldandi starfi þarna. Þetta er bara í skoðun,“ segir Heiða.