Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, segir enga á­kvörðun hafa verið tekna um að hætta starf­semi með­ferðar­heimilisins á Lauga­landi.

Rekstrar­aðili heimilisins hafi sagt upp samningi sínum og nú sé verið að skoða hvernig sér hægt að halda úr­ræðinu á­fram.

„Þetta er þannig að í kringum ára­mótin til­kynnir rekstrar­aðilinn sem heldur þessari stofnun gangandi að hann vilji segja upp úr­ræðinu og hætta starf­semi. Það er þá sem við fáum þetta í fangið, Barna­verndar­stofa og ráðu­neytið,“ segir Ás­mundur.

„Við erum á fyrstu metrunum í því að fara yfir hvað verður gert. Það er ekki búið að taka á­kvörðun um fram­haldið,“ bætir hann við.

Ás­mundur Einar mun funda í dag með starfs­fólki Lauga­lands að þeirra beiðni en starfs­menn hafa sent á­skorun á Ás­mund og Heiðu Björg Pálma­dóttir, for­stjóra Barna­verndar­stofu um að finna leið til að halda starf­seminni gangandi.

„Ég ætla síðan að fara norður og hitta alla hlutað­eig­andi. Við erum síðan að hafa sam­band við barna­verndar­nefndirnar því það eru þær sem eru að nýta úr­ræðið,“ segir Ás­mundur.

Fyrrum skjól­stæðingar með­ferðar­heimilisins Lauga­lands og að­stand­endur opnuðu í dag vefsíðu þar sem þau deila frá­sögnum sínum um hvernig með­ferðar­heimilið bjargaði lífi þeirra. Markmið síðunnar er að hvetja yfirvöld til þess að halda starfseminni áfram.

Hafa sex mánuði til að finna lausn

Með­ferðar­heimilið Lauga­land í Eyja­firði hefur verið rekið af fé­laginu Pétri G. Brodda­syni ehf. í meira en ára­tug. Rekstrar­aðilar sögðu samningnum sínum upp við ríkið af per­sónu­legum á­stæðum.

„Það var vilji til að fram­lengja samninginn af okkur hálfu. Við höfum í rauninni sex mánuði. Samningnum er sagt upp 1. janúar og það eru sex mánuðir, þannig við erum á fyrstu metrunum að fara yfir málið,“ segir Ás­mundur.

Ás­mundur segir fyrsta verk­efnið sé að heyra í þeim sem kaupa þjónustuna þ.e. barna­verndar­nefndum og fé­lags­þjónustur í sveitar­fé­laganna. Barna­verndar­stofa, í sam­starfi við ráðu­neytið, hefur nú þegar byrjað að hafa samband við viðeigandi aðila.

Ánægja með starfsemi Laugalands

Heiða Björg Pálma­dóttir, for­stjóri Barna­verndar­stofu, tekur í sama streng og Ás­mundur og segir það of snemmt að segja til um hvað verður um starf­semi Lauga­lands. Hún segir að það hafi alltaf verið á­nægja með Lauga­lands.

Barna­verndar­stofa mun funda með sveitar­fé­lögunum í næstu viku. „Við erum að fara yfir stöðuna með sveitar­fé­lögunum og ráðu­neytinu. Við erum líka skoða þarfir þeirra barna sem okkur ætlað að þjónusta,“ segir Heiða.

„Við metum svo fjár­hags­legar og fag­legar for­sendur fyrir á­fram­haldandi starfi þarna. Þetta er bara í skoðun,“ segir Heiða.