Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundar á mánudag um hvort þær breytingar sem gerðar voru á kosningalögum hafi skýrt kjörgengi afbrotamanna nægilega vel. Kosningalögin tóku gildi um áramót en rúmir fjórir mánuðir eru í sveitarstjórnarkosningarnar.

„Ég taldi ástæðu til að rýna þetta sérstaklega. Það getur verið að það reyni á í vor og því er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður nefndarinnar.

Fyrir tæpu ári greindi Fréttablaðið frá því að Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, fengi ekki sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Ástæðan var talin sú að óvissa ríkti um kjörgengi hans í ljósi þess að hann væri enn á reynslutíma.