Ekki er vitað hve langan tíma rannsókn mun taka á andláti manns sem leitaði á bráðamóttöku Landspítalans vegna hjartaverks en lést úr hjartaáfalli skömmu eftir heimkomu. Samkvæmt landlækni er algengur rannsóknarími 3 til 18 mánuðir.

„Mál eins og hér um ræðir eru sett í forgang,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis.

Embættið segir ótímabært að álykta um hvort tengsl séu milli þessa máls og álags á bráðadeildinni. „Þetta er þó sannarlega eitt af því sem horft verður til við rannsókn embættisins á þessu atviki,“ segir í svarinu.

Þá segir embættið ekki tímabært að bera málið saman við önnur. Rannsóknin sé á frumstigi. Orsakir alvarlegra atvika séu oftast blanda kerfislægra og mannlegra þátta.

„Því er óvarlegt að tjá sig um alvarleg atvik eða draga ályktanir fyrr en rannsókn þeirra er að fullu lokið.“