Í ljósi nýrrar yfirlýsingar vísindamanna um áhrif parasetamóls á fóstur hyggst Lyfjastofnun skoða hvort breyta þurfi leiðbeiningum. Verður það gert í samráði við Lyfjastofnun Evrópu.

Samkvæmt yfirlitsgrein, eftir vísindamenn við Kaupmannahafnar-, Árósa-, Massachusetts- og fleiri háskóla sem birt var í tímaritinu Nature, hefur parasetamól áhrif á heilsu fósturs á ýmsan hátt. Svo sem á taugakerfið, þvagfæri, frjósemi og hegðun. Kalla rúmlega 90 vísindamenn og heilbrigðisstarfsfólk eftir því að þungaðar konur verði varaðar við því að nota parasetamól og sérstakar merkingar verði settar á pakkningar.

Parasetamól er algengasta verkjalyfið á Íslandi og í mörgum ef ekki flestum öðrum löndum Evrópu. Er það selt hér í lausasölu undir ýmsum merkjum, svo sem Paratabs, Panodil og Pinex, og gegn lyfseðli undir Parkódín, Dolorin og fleiri heitum.

Í leiðbeiningum með til dæmis Paratabs, einu mest selda lyfi landsins, segir að engin þekkt áhætta sé við notkun þess á meðgöngu. Þó er þunguðum konum almennt ráðlagt frá því að nota nokkur lyf á fyrstu þremur mánuðunum nema í samráði við lækni.

Hrefna Guðmundsdóttir, yfirlæknir Lyfjastofnunar, segir atriði í greininni sláandi. „Hingað til höfum við litið á parasetamól sem öruggt lyf. Það hefur verið notað í áratugi og þess vegna höfum við kannski ekki gefið því gaum,“ segir hún. „Þessi grein bendir á atriði sem er ekki hægt að líta fram hjá. Það þarf að skoða það sem liggur að baki í kjölinn og hugsanlega gera breytingar á fylgiseðlinum.“

Einkum þurfi að kanna þær rannsóknir sem liggi að baki, sem eru annars vegar faraldslegar rannsóknir á mæðrum og börnum og hins vegar dýratilraunir.

Eitt af því sem verði skoðað sé skammtastærðir, hugsanlega gæti verið í lagi fyrir þungaðar konur að nota parasetamól í stuttan tíma en ekki við langvarandi verkjum. Lyfið komist hins vegar yfir fylgjuna til fóstursins. „Það eru aðrar leiðir fyrir þungaðar konur að takast á við verki, svo sem með öðrum lyfjum eða hjá sjúkraþjálfara,“ bendir hún á.

Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands og helsti sérfræðingur landsins í eitrunum í móðurkviði, segir áhrif ýmissa lyfja á fóstur enn hulin og því almennt ekki mælt með því að þungaðar konur taki lyf komist þær hjá því.

„Hvorki framleiðendur, lyfjafræðingar, læknar né annað heilbrigðisstarfsfólk vilja að lyfin sem þau nota hafi áhrif á fóstur, sem er dýrmætasta gjöf sem foreldrar fá. Því þarf að fara mjög vandlega yfir rannsóknir á borð við þessa,“ segir hann.

Sveinbjörn segir apótekin bundin af fyrirmælum sem fylgja hverju lyfi þegar það er skráð hjá Lyfjastofnun og koma fram á fylgiseðli eða merkingum. Stundum séu viðvaranir settar utan á lyfjapakkningar eins og vísindamennirnir fyrrnefndu vilja.

„Við vitum að ofneysla parasetamóls getur valdið lifrarskaða í fullorðnum, sérstaklega ef áfengis eða fituríks matar er neytt með,“ segir hann. „Það sama gæti átt sér stað í fóstri og því þarf að passa upp á skammtana þegar um þungaðar konur er að ræða.“