„Við þurftum að loka afgreiðslunni hérna hjá okkur frá og með síðastliðnum fimmtudegi. Afgreiðslan uppfyllti ekki lengur kröfur Landlæknis um varnir gegn smithættu,“ segir Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis sem gefur út rafræn skilríki.

Hert samkomubann tók gildi á þriðjudaginn og í kjölfarið varð skerðing á þjónustu hjá mörgum af samstarfsaðilum Auðkennis. Afgreiðsla Auðkennis er að sögn Haraldar meira hugsuð til að sinna skráningum hjá aðilum sem þurfa sérstaka aðstoð, meðal annars vegna tæknilegra mála, en ekki sem almenn afgreiðsla.

„Á miðvikudaginn myndaðist löng röð hjá okkur en húsnæði félagsins er því miður ekki í stakk búið til þess að mæta afgreiðslu við þessar aðstæður þar sem öryggi viðskiptavina og starfsmanna skiptir höfuðmáli. Síðustu daga og vikur hefur rafræn þjónusta verið aukin og opnuðu opinberir aðilar til dæmis fyrir rafrænar umsóknir fyrir ýmis úrræði.“

Stór hluti þjóðarinnar er með rafræn skilríki í dag eða rúmlega 230 þúsund manns og hafa því flestir getað nýtt þau. Haraldur segir að margir þeir sem eru ekki með skilríki virðist hafa séð ábata í að fá sér skilríki nú og hefur það skapað tímabundið aukið álag.

„Bankar, sparisjóðir og fjarskiptafyrirtæki hafa staðið sig frábærlega í því að afgreiða skilríki við erfiðar aðstæður og allir eru að gera sitt besta í að mæta breyttum aðstæðum þar sem öryggi allra er haft að leiðarljósi,“ segir Haraldur

„Við erum að skoða hvernig er best að standa að afgreiðslu skilríkja og er meðal annars í skoðun að Auðkenni setji upp nýja afgreiðslu á miðlægum stað til að styðja við útgáfu skilríkja. Það vonandi skýrist núna á næstu dögum. Ef við dreifum álaginu á alla er þetta vel gerlegt.“

Haraldur segir að því miður hafi ekki allir möguleika á því að mæta á skráningarstöð þar sem þeir geta til dæmis verið í sóttkví eða vegna veikinda.

„Það er líka í skoðun hvort og hvernig hægt sé að mæta þannig tilvikum en við viljum brýna fyrir fólki að mæta ekki til að fá sér skilríki ef til dæmis heilsa eða sóttkví hamlar, þar sem það ættu alltaf að vera til aðrar leiðir til þess að mæta því sem skilríkin eiga að gera.“

Kerfið sé að virka mjög vel en að sjálfsögðu finnist einstaklingar sem eru ekki komnir með skilríki. „Maður getur líka velt því fyrir sér hvernig staðan væri núna ef við hefðum ekki þetta kerfi,“ segir Haraldur.

Þá minnir hann á að mikilvægt sé að fólk hugi að gildistíma rafrænu skilríkjanna sinna. Gildistími þeirra er fimm ár en hægt er að sjá hvenær skilríki renna út á síðunni mitt.audkenni.is. Hægt er að endurnýja skilríki sem eru að fara að renna út á netinu en ef það gleymist þarf að fara á afgreiðslustað til að fá ný.