Ýmislegt spennandi er að gerast á sviði vetraríþrótta á höfuðborgarsvæðinu. Á dögunum var kynnt ný framkvæmdaáætlun skíðasvæða í Bláfjöllum og Skálafelli sem gerir ráð fyrir mikilli fjárfestingu í nýjum skíðalyftum og tækjum til snjóframleiðslu. Alls verður fjórum milljörðum varið í framkvæmdir á svæðinu á næstu fimm árum.

En það er líka innan höfuðborgarsvæðisins sem menn horfa til frekari framkvæmda. Í desember var kynnt hugmynd um sérstakan Vetrargarð á fundi menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Í dag eru reknar þrjár skíðabrekkur innan höfuðborgarsvæðisins í umsjón frístundamiðstöðvarinnar Gufunesbæjar fyrir borgina. Sá rekstur glímir við það vandamál, eins og önnur skíðasvæði, að ekki er á vísan að róa varðandi opnunartíma svæðanna. Vetrargarðurinn mun mögulega leysa það vandamál að mestu leyti.

„Þetta er eins konar Fjölskyldugarður en með áherslu á vetraríþróttir. Hugmyndin er að auk skíðabrekkna verði þar meðal annars stökkpallar, túpubrautir og fjölbreytt leiktæki. Þá má nefna gönguskíðabraut og fjallahjólabraut innan garðsins sem og veitinga- og þjónustukjarni,“ segir Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjóri Gufunesbæjar.

Hann ítrekar að verkefnið sé á hugmyndastigi en á áðurnefndum fundi innan borgarkerfisins féll hugmyndin í góðan jarðveg.

„Markmiðið er að slíkur garður yrði heilsársgarður. Við myndum lengja vetrartímabilið töluvert með snjóframleiðslu og á hlýrri tímabilum yrði meðal annars boðið upp á svokallaða þurrskíðun þar sem skíðað er niður sérstakar mottur. Það hefur gefið góða raun erlendis,“ segir Atli Steinn.

Hann segir að garðurinn sé hugsaður fyrir almenning en nýtist einnig afar vel fyrir byrjendur í skíðaíþróttinni.

„Við sjáum þarna fyrir okkur að skíðafélögin geti nýtt aðstöðuna fyrir yngstu iðkendur auk þess sem leik- og grunnskólar á höfuðborgarsvæðinu geti heimsótt garðinn reglulega. Þannig myndu fleiri börn og unglingar læra á skíði eða snjóbretti sem stuðlar í auknum mæli að aukinni hreyfingu, útiveru og bættri lýðheilsu. Skíðasvæðin utan borgarmarkanna njóta síðan góðs af, því að markhópurinn stækkar með aukinni þátttöku innn borgarmarkanna,“ segir Atli Steinn.

Hvað staðsetningu garðsins varðar er helst horft til svæðisins í kringum skíðalyftuna í Breiðholt en önnur svæði innan höfuðborgarinnar eru einnig í skoðun.

„Ég tel afar mikilvægt að efla eins og kostur er skíðasvæðin í borginni sem eru í dag á Ártúnshöfða, í Breiðholti og í Grafarvogshverfi. Það er mikill kostur að hafa slík svæði innan borgarmarkanna. Brekkurnar eru viðráðanlegar fyrir alla og stutt að fara. Vetrargarðurinn, eins og hann var kynntur fyrir ráðinu myndi lengja skíðatímabilið í borginni verulega. Næstu skref eru að setja af stað starfshóp sem fer yfir staðsetningu, hönnun, kostnað, rekstrarfyrirkomulag og áfangaskiptingu,” segir Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar.