Um er að ræða sjö sæta bíl en það sem er sérkennilegt við hann er að hann verður með sex sætum fyrir fullorðna. Sjöunda sætið er barnasæti sem er fest við hryggjarstykkið í bílnum ef svo má segja en það er eftir endilangri miðju bílsins. Um nýtt útlit er líka að ræða með Vision 7S. Munar þar mest um breytingar á framenda sem er nú ekki lengur með lóðréttu Skoda-grillinu. Þess í stað eru sjö lóðréttar innfellingar sem geyma tæknibúnað og skynjara sem þarf fyrir sjálfkeyrandi bíla. Ljósin eru líka ný af nálinni, með T-laga aðalljósum með ljósarák á milli. Loks er merki Skoda ekki lengur sýnilegt og er það nú einfaldlega sýnt með stöfum.

Innanrýmið er hannað utan um miðjustykkið í bílnum með sjöunda sætið sem nokkurs konar barnasæti, en ekki er víst að það nái á framleiðslustigið.

Innandyra er 14,8 tommu snertiskjár milli sætaraðanna en hægt er að snúa fremstu sætunum tveimur í áttinni að skjánum. Stýrið er í áttina að sporöskjulagi og einungis tveggja arma, en fyrir aftan það er 8,8 tommu upplýsingaskjár. Meðal sniðugra lausna hjá Skoda eru bakpokar sem búið er að fella inn í bak framsætanna auk segla sem komið er fyrir víða um bílinn til að halda farsímum eða járnflöskum á sínum stað. Tilraunabíllinn er með 89 kWst rafhlöðu og drægi upp á 600 km og verður með stærsta MEBundirvagni sem sést hefur hingað til. Meðal annarra raf bíla sem vænta má frá Skoda fyrir 2026 er nýr smábíll sem kosta á innan við 20.000 evrur.