Þingflokksformenn auk forseta þingsins munu á fundi sínum næstkomandi mánudag ræða þá stöðu sem upp er komin í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem Bergþór Ólason situr sem formaður. Ljóst er að hann nýtur ekki meirihlutastuðnings til þess að sitja í nefndinni. Líklegt þykir að Miðflokkurinn setji nýjan formann inn í nefndina í stað Bergþórs.

Alþingi var enn að vinna úr málum sem lúta að tali þingmanna á Klaustri bar í lok nóvember þegar Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson birtust skyndilega aftur við þingstörf í morgun. Mennta- og menningarmálaráðherra sýndi það svo ekki varð um villst að hún var ekki par ánægð með Gunnar Braga þegar hann sat í þingsal við upphaf þingfundar. Eftir stutt eintal hennar yfir Gunnari Braga gekk hún úr salnum.

Ari Trausti Guðmundsson segir formanni umhverfis- og samgöngunefndar, Bergþóri Ólasyni, vera ljóst að hann hafi ekki stuðning til áframhaldandi setu sem formaður í nefndinni. Það sé hins vegar staðreynd að stjórnarandstaðan fékk þrjá formannsstóla í nefndir þingsins og raðar þar niður eftir þingstyrk. „Þau fengu þrjá formenn nefnda eftir ákveðnu samkomulagi og því er það þeirra að leysa þetta mál og nú hefur bæði fulltrúi Viðreisnar og Samfylkingar og einnig fulltrúi Vinstri grænna lýst yfir að þau vilji ekki að hann leiði þetta áfram og það er honum alveg ljóst,“ segir Ari Trausti.

Fari hins vegar svo að bæði Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gangi til liðs við Miðflokkinn verður Miðflokkurinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi. Þar með getur hann krafist aukinna valda og ráðið því í hvaða nefndum, þar sem minnihlutinn á formannsstólinn, Miðflokkurinn verður í formennsku.

Málefni þingsins og vinnufriður þess var til umræðu á þingflokksformannafundi síðdegis. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, sagði fundinn hafa tekið um hálftíma og verið afar yfirvegaðan þar sem farið var skipulega yfir hvernig ná mætti starfsfriði og keyra áfram þingstörfin. „Við munum svo aftur fara yfir stöðuna á mánudaginn. Við erum ekki að ræða málefni einstakra þingmanna heldur aðeins umhugað um að þingstörf geti gengið hér áfram,“ segir Bjarkey.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru málefni umhverfis- og samgöngunefndar einnig rædd á fundinum en þar situr Bergþór Ólason sem formaður nefndarinnar. Þar innandyra er alls enginn einhugur um að Bergþór verði áfram formaður og ljóst að hann verður það ekki.

„Bergþór kemur og hefur rétt til að ganga inn í nefndina og rétt til að taka sitt sæti sem hann hafði. Við getum ekki sagt nei. Málið er að hann er þarna samkvæmt samkomulagi minnihlutaflokkanna,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, annar þingmanna VG í nefndinni.

Ari Trausti segir nokkra möguleika í stöðunni en að minnihlutaflokkarnir verði að leysa málið sín á milli. „Við þurfum ekkert að kjósa því ef minnihlutinn ræðir saman þá getur hann stigið til hliðar og einhver annar úr Miðflokknum komið inn í hans stað,“ segir Ari. „Við í meirihlutanum erum í raun og veru ekki að vasast með þetta mál, þetta er í höndum minnihlutans. En þetta verður rætt í hópi þingflokksformanna á mánudag.“