Verjendur Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fluttu mál sitt í réttarhöldunum yfir honum í öldungadeild Bandaríkjaþings í gær.

Demókratar ákærðu Trump í annað skipti fyrir embættisbrot fyrir um mánuði síðan. Í þetta skipti er hann sakaður um að hafa hvatt til árásarinnar á þinghúsið 6. janúar síðastliðinn.

Áður en réttarhöldin hófust í gær sögðu verjendur Trumps að þeir myndu klára málflutning sinn sama dag. Þeir nýttu sér því aðeins tvo daga til að flytja mál sitt.

Pólitískar nornaveiðar

Lögmenn Trumps hófu málflutning sinn á að segja réttarhöldin vera pólitískar nornaveiðar sem væru ekki á rökum reistar. Þeir sögðu að Trump hafi ekki hvatt stuðningsmenn sína til of beldis og hafi alltaf beitt sér fyrir löghlýðni og rétti til friðsamlegra mótmæla.

Máli sínu til stuðnings sýndu þeir nokkur myndbönd, sum hver skeytt með dramatískri tónlist. Eitt þeirra bar saman ummæli Trumps til hliðar við ummæli fjölda demókrata sem þeir töldu sambærileg og sýndu fram á að forsetinn fyrrverandi hafi ekki hvatt til of beldis.

Annað myndband var ellefu mínútna löng samantekt af demókrötum að segja orðið „berjast“ við ýmsar aðstæður, en notkun Trumps á orðinu í ræðu sinni til stuðningsmanna sinna var ein af ástæðum demókrata fyrir ákærunni á hendur honum.

Lögmenn Trumps sögðu myndbandið sýna að hægt væri að nota orðið án þess að hvetja til of beldis, og að demókratar hefðu tekið orð Trumps úr samhengi. Réttarhöldin halda áfram næstu daga en líkur eru taldar á að Trump verði sýknaður af ákærunum. Til þess að hann verði sakfelldur þurfa allir fimmtíu þingmenn demókrata og sautján þingmenn repúblikana að greiða atkvæði þess efnis, en  margir repúblikanar hafa lýst yfir að þeir muni ekki beita sér fyrir sakfellingu.