Starfsemi dagsetursins Vin verður rekið í óbreyttri mynd allt árið 2023 og eins á meðan ekki hefur fundist ásættanleg lausn sem notendur Vin, hagsmunaaðilar og fagfólk mótar í sameiningu. Þetta segir borgarfulltrúinn og lögmaðurinn Magnús Davíð Norðdahl á Facebook.
Í dag fundaði Velferðarráð Reykjavíkurborgar um örlög batasetursins Vinjar við Hverfisgötu. Lengi hefur fólk í geðrænum vanda getað sótt félagsskap og fjölbreytta andlega upplyftingu í úrræðinu. Ákvörðun Velferðaráðs verður því að teljast gleðifréttir fyrir notendur Vin.
Magnús segir á Facebook að það hafi verið skipaður sérstakur starfshópur til þess að yfirfara fyrirkomulag úrræðisins til framtíðar.
„Í starfshópnum sitja fulltrúar frá Geðhjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og eins einstaklingur úr hópi notenda þjónustunnar. Nauðsynlegt er að engar
breytingar verði gerðar á starfsemi Vinjar nema með fullri aðkomu notenda,
hagsmunaaðila og fagfólks,“ segir Magnús.
Sjálfur harmar Magnús hvernig staðið hefur að málum gagnvart notendum þjónustunnar upp á síðkastið, í tengslum við þá umfangsmiklu hafræðingu sem ráðist var í af hálfu borgarinnar.
„Ég ber sjálfur ábyrgð hvað þetta varðar sem starfandi borgarfulltrúi í meirihluta borgarstjórnar. Að sama skapi bind ég vonir við að málið sé nú komið í annan og betri farveg og mun fylgja því eftir,“ segir Magnús.