Torfey Ólöf Pálsdóttir, bachelornemi í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, var í miðju lokaprófi heima hjá sér í Grindavík þegar húsið byrjaði að nötra og skjálfa. Hundurinn hennar, Loki, varð ansi órólegur og eftir annan skjálftann tók hann sig til og stökk út um gluggann og hljóp yfir götuna í átt að matvöruversluninni Nettó.

„Þetta var óþægilegt. Truflandi. Ég var að taka heimapróf þegar Loki stökk út um gluggann. Svo fékk ég bara fullt af símtölum og ein kona fór og sótti hann fyrir mig,“ segir Torfey í samtali við Fréttablaðið.

„Ég er alveg góð núna en hann er ennþá svolítið órólegur og hræddur,“ segir hún og bendir á Loka sem virðist enn svolítið æstur eftir viðburðarríkan dag. Segist hún ánægð að Loki hafi ekki farið lengra en í búðina, þar var hann í öruggum höndum.

Starfsmaður í Nettó passaði upp á Loka þangað til að hann var sóttur. Hann stökk út um gluggann og hljóp yfir götuna og beint inn í Nettó.

Jarðeðlisfræðingum er kunnugt um ýmsar breytingar sem verða í náttúrunni skömmu fyrir mikla jarðskjálfta, svo sem á loftþrýstingi, lofthita, framandi lofttegundum og rafsegulsviði í andrúmsloftinu sem getur valdið hræðslu hjá dýrum. Áttavitin í höfðinu á dýrum getur ruglast og hátíðnihljóð vegna vaxandi spennu í jarðskorpunni getur valdið óróleika í dýrunum.

Torfey Ólöf er Grindvíkingur í húð og hár og hefur þá upplifað ansi marga skjálfta eftir hrinuna í fyrra. „Það hafa ekki komið svona margir stórir á svona stuttum tíma áður. Þetta er mögulega sá stærsti sem ég hef upplifað.“