Jarðskjálftinn sem varð rétt eftir klukkan tíu í dag gæti verið lognið á undan storminum að mati Ármanns Höskuldssonar, eldfjallafræðings hjá Háskóla Íslands. „Þetta er á virku eldfjallasvæði og þá er alltaf möguleiki á að þetta endi með eldgosi,“ segir Ármann.
„Þetta er fyrst og fremst mikil spennulosun en gos er alltaf möguleiki,“ bendir Ármann á sem komst sjálfur ekki hjá því að finna skjálftann þar sem allt nötraði á skrifstofu hans. „Þetta eru stórir skjálftar, þar sem það er tvöfalt spennusvið á Reykjanesinu.“ Það sé meðal annars vegna þess að það er allt svo skakkt á svæðinu.
„Með skjálftunum er verið losa um þessa skáspennu og þegar það er búið þá eru aðstæður orðnar réttar til að opna skorpuna og hleypa einhverju upp.“ Aðspurður um hvenær ljóst væri að eldgos færi að gera vart við sig sagði Ármann það vera auðvelt að sjá. „Bara þegar reykurinn kemur, þá er þetta klárt.“
Fyrirvari aðeins nokkrar mínútur
Ármann segir skorpuna ekki vera mjög þykka á svæðinu og þess vegna yrði kvikan fljót að fara í gegn. Færi svo að gos væri að fara að koma upp úr jörðinni myndu eldfjallafræðingar aðeins fá fimmtán mínútna viðvörun. „Við höfum ekki meiri fyrirvara en það á þessu svæði, aðeins nokkrar mínútur,“ útskýrir Ármann.
„Skjálftamælar á svæðinu mæla svokallaðan óróa og ef að óróinn kemur þegar kvikan byrjar að sjóða þá sést það á mælunum.“ Sjáist það sé ljóst að það er eitthvað sé að hreyfa sig og mjög stutt í uppkomuna.
„Við höfum aldrei mælt eldgos á þessu svæði, mælarnir eru allir þannig séð nýir og við erum því ekki búin að vera með eldgos þarna á „mælatíma,“ þannig menn læra bara af því þegar fyrsta eldgosið kemur hver fyrirvarinn verður á því.“
Jörðin nötrar enn
Samkvæmt mælingum hefur aðalhreyfingin verið á milli Keili og Fagradalsfjalls, austur af Grindavík, en einnig hafa mælst nokkrir stórir skjálftar rétt við Grindavík. Fyrsti skjálftinn var af stærðinni 5,7 varð 3,3 kílómetra suðsuðvestur af Keili á Reykjanesi.
Margir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, nokkrir yfir fjórir að stærð og jörð heldur áfram að skjálfa á svæðinu.