Skjálfti fannst víða á Reykjanesinu og á höfuðborgarsvæðinu um klukkan hálf eitt í dag. Óyfirfarnar frumniðurstöður á vefsíðu Veðurstofu Íslands segir að skjálftinn hafi verið um 3,4 að stærð og hafi upptök skjálftans verið í kringum Fagradalsfjall þar sem jarðskjálftahrina hefur verið í gangi í nokkra daga.
Vakthafandi jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við Fréttablaðið að skjálftinn hafi verið um þrír að stærð. Dregið hefur úr skjálftahrinunni í dag en þó hafa um 1400 skjálftar mælst við gosstöðvarnar síðastliðinn sólarhring.
Vísindaráð Almannavarna mun funda klukkan hálf þrjú í dag með náttúruvásérfræðingum Veðurstofunnar til að fara yfir stöðuna á Reykjanesinu.
Eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara
Almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákváðu að virkja sms-skilaboð sem verða send til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreint svæði vegna jarðskjálftanna við Fagradalsfjall.
Er þetta gert því eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara. Komi til eldgoss verður textaskilaboðum breytt í beina aðvörun til þeirra sem eru á umræddu svæði.