Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgönguráðherra, er ómyrkur í máli sínu þegar hann gagnrýnir stöðu heilbrigðismála. Hann segir að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins muni leggja það fyrir forystu flokksins að taka málið upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Jón birti færslu á Facebook-síðu sinni í morgun í tilefni af viðtali Morgunblaðsins við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Í viðtalinu segir Svandís að ástand biðlista fyrir liðskiptaaðgerðum sé óásættanlegt. Segir hún jafnframt að meira fjármagn þurfi til svo að hægt sé að stytta biðlista.

„Það hefur komið fram áður að margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög ósáttir við þessi mál og hvernig þróunin hefur verið.“

Ástandið „gjörsamlega óþolandi“

Jón segist sammála Svandísi með að ástandið sé óásættanlegt, en er þó ósammála um að meira fjármagn þurfi til. Fyrst og fremst þurfi að nýta fjármagn betur. „Það hefur komið fram áður að margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög ósáttir við þessi mál og hvernig þróunin hefur verið,“ segir Jón í samtali við Fréttablaðið. Gagnrýnin er eins og Jón segir ekki ný af nálinni, en síðasta haust birtist grein eftir Jón og samflokksmenn hans, þau Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir og Brynjar Níelsson, þar sem ástandið varðandi liðskiptaaðgerðir eru gagnrýndar.

Ástandið er að sögn Jóns gjörsamlega óþolandi. „Fólk þarf að bíða mánuðum saman eftir greiningu frá lækni til þess síðan að komast á sjálfan biðlistann. Í raun eru þetta því tveir biðlistar,“ segir Jón. „Þetta hefur í för með sér mikinn samfélagskostnað og mikil áhrif á lífsgæði þessa fólks.“

„Þolinmæðin á þrotum“

Til að vinda ofan af biðlistanum hafa íslenskir sjúklingar verið sendir til útlanda í aðgerðir. Jón segir framkvæmdina mismuna fólki eftir efnahag. „Fólk þarf sjálft að bera ferðakostnað af þessum aðgerðum erlendis og því er verið að mismuna fólki,“ segir hann. Þá segir Jón að það sé mun dýrara að senda fólk til útlanda í aðgerð en að sjálfstætt starfandi sérfræðingar framkvæmi aðgerðirnar hér á landi. „Ráðherra ber það fyrir sig að það þurfi nýtt fjármagn, en við erum að greiða tvöfalt eða 2,5 sinnum meira miðað við það sem aðgerðirnar kosta hér heima,“ segir Jón.

Þetta segir Jón að sé ekki boðlegt, og að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu verulega þreyttir á ástandinu. „Þetta er ekki nýtt mál, það hefur verið uppi í allan vetur. Við sitjum svo uppi með það að enn lengjast biðlistar þótt fjármagni sé bætt við.“

Jón segir að því verði beint til forystu Sjálfstæðisflokksins að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi eftir páska, enda sé staðan óásættanleg. „Það hafa fleiri þingmenn tjáð sig um þetta mál og ráðherra er fullkunnugt um óánægju okkar. Það er búið að ganga á eftir þessu en þolinmæðin er á þrotum,“ segir hann að lokum.