Skömmu fyrir klukkan 11 í dag varð skjálfti af stærðinni 3,8 um 1,4 kíló­metra frá Keili en skjálftinn fannst vel á höfuð­borgar­svæðinu. Hálf­tíma fyrr mældist annar skjálfti 3,2 að stærð tæpan kíló­metra frá Keili.

Sex skjálftar af stærðinni 3,0 eða stærri hafa nú mælst á Reykja­nesi frá því um mið­nætti, sá stærsti 4,9 að stærð klukkan hálf tvö í nótt. Virknin er nú að mestu bundin við svæðið suð­vestur við Keili og við Trölla­dyngju en einnig hafa orðið skjálftar við Fagra­dals­fjall.

800 skjálftar frá miðnætti

Að því er kemur fram í til­kynningu frá Veður­stofu Ís­lands hafa tæp­lega 800 jarð­skjálftar mælst á Reykja­nesi frá mið­nætti en stærstu skjálftarnir fundust víða á Reykja­nes­skaga, höfuð­borgar­svæðinu, Suður­landi og Vestur­landi.

Kristín Jóns­dóttir, hóp­stjóri náttúru­vá­vöktunar hjá Veður­stofu Ís­lands, greindi frá því í sam­tali við Frétta­blaðið fyrr í dag að það væri veru­lega ó­lík­legt að skjálfta­hrinan á Reykja­nesi muni standa yfir mikið lengur en á­fram er hætta á að það komi stærri skjálftar.

„Þessi sviðs­mynd að það komi stærri skjálftar, allt að stærð M6,5, er auð­vitað enn þá inni, en við höfum ekki verið að sjá virknina færast neitt inn á þetta svæði þar sem við vitum að þessir allra stærstu skjálftar verða á Reykja­nes­skaganum,“ sagði Kristín.