Jörð skelfur enn á Reykja­nesinu og varð skjálfti af stærðinni 3,5 rétt fyrir norðan Fagra­dal klukkan 14:35 í dag. Þetta er annar skjálftinn sem er yfir þrír á stærð sem hefur orðið etir klukkan tvö í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni fannst skjálftinn í byggð og á höfuðborgarsvæðinu.

Skjálftarnir tengjast jarð­skjálfta­hrinu sem hófst í kringum Krýsu­vík fyrir nokkrum dögum. Hrinan eykur líkur á stærri skjálftum en ó­stöðug­leiki nær yfir stórt svæði. Síðast­liðna 48 klukku­tíma hafa orðið tæp­lega 1700 skjálftar þar af 63 yfir þrír á Richter.

Jarð­skjálftarnir í gær­morgun voru milli Kleifar­vatns og Grinda­víkur­vegar og voru þar tveir skjálftar yfir fimm á Richter.

Hrinan í gær var ó­venju­leg að sögn Kristínar Jóns­dóttir, fag­stjóra náttúru­vá­r­vöktunar, að því leyti að hún var kröftug og henni fylgdu margir kröftugir skjálftar á stuttum tíma.

Engar vís­bendingar eru um gos­ó­róa á svæðinu, en sér­fræðingar Veður­stofunnar hafa verið við gas­mælingar á svæðinu til að meta hvort ein­hverjar breytingar séu merkjan­legar á gas­út­streymi.