Jörð skelfur enn á Reykjanesinu og varð skjálfti af stærðinni 3,5 rétt fyrir norðan Fagradal klukkan 14:35 í dag. Þetta er annar skjálftinn sem er yfir þrír á stærð sem hefur orðið etir klukkan tvö í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni fannst skjálftinn í byggð og á höfuðborgarsvæðinu.
Skjálftarnir tengjast jarðskjálftahrinu sem hófst í kringum Krýsuvík fyrir nokkrum dögum. Hrinan eykur líkur á stærri skjálftum en óstöðugleiki nær yfir stórt svæði. Síðastliðna 48 klukkutíma hafa orðið tæplega 1700 skjálftar þar af 63 yfir þrír á Richter.
Jarðskjálftarnir í gærmorgun voru milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar og voru þar tveir skjálftar yfir fimm á Richter.
Hrinan í gær var óvenjuleg að sögn Kristínar Jónsdóttir, fagstjóra náttúruvárvöktunar, að því leyti að hún var kröftug og henni fylgdu margir kröftugir skjálftar á stuttum tíma.
Engar vísbendingar eru um gosóróa á svæðinu, en sérfræðingar Veðurstofunnar hafa verið við gasmælingar á svæðinu til að meta hvort einhverjar breytingar séu merkjanlegar á gasútstreymi.
