Fund­ur al­manna­varna með vís­inda­mönn­um Veður­stof­unn­ar, full­trú­um sveit­ar­fé­laga, viðbragðsaðilum og full­trú­um úr raf­orku- og fjar­skipta­geir­an­um fór fram í hádeginu þar sem farið var yfir skjálfta­virkni og mögu­lega þróun henn­ar vegna jarðskjálftahrinunnar á Reykjanesi.  

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir í samtali við Fréttablaðið að hættumatið sé það sama og áður.

„Við erum að vinna út frá tveimur sviðsmyndum, annars vegar að það geta komið fleiri stórir skjálftar í þessari hrinu, sambærilegir þeim sem við höfum séð síðustu daga á milli 5 og 6 að stærð. Áhrif af slíkum skjálfta geta t.d. verið að lausamunir detti úr hillum eða að innanstokksmunir hreyfist til. Hin sviðsmyndin er sú að stórir skjálftar, allt að 6,5 að stærð, gætu orðið milli Kleifarvatns og Bláfjalla, segir Víðir.

Fólk undirbúi sig vel

Hann segir að skjálfti upp á 6,5 á svæðinu milli Kleifarvatns og Bláfjalla gæti komið upp án frekari fyrirvara.

„Það er alveg jafn líklegt að skjálftahrina á þessu svæði byrji á stórum skjálfta. Þess vegna erum við að biðja fólk að undirbúa sig vel," segir Víðir.

Hann brýnir fyrir fólki á suðvesturhorni landsins, Reykjanesinu, Árnessýslu og á höfuðborgarsvæðinu til að huga vel að aðstæðum heima hjá sér.

„Skjálfti að stærð 6,5 mun finnast mjög víða um land en áhrif upp á skemmdir og að það falli til munir, á við það svæði sem sem ég nefndi hér á undan."

Annar stöðufundur verður haldinn strax í fyrramálið en að sögn Víðis eru almannavarnir í stöðugu sambandi við vísindamenn. „Við erum í samskipti við þá mörgum sinnum á klukkustund til að fylgjast með stöðu mála," segir Víðir að lokum.