Skjálfti að stærð 5,2 mældist 2,5 kílómetra norðaustur af Fagradalsfjalli klukkan sjö mínútur yfir átta. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu, á suður og suðvesturlandi, austur að Skógum og norður að Hvanneyri og er sá stærsti sem mælst hefur á svæðinu frá því á miðvikudag.

Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst í kjölfarið, einn að stærð 3,9 mældist stuttu síðar 3,3 kílómetra suðvestur af Keili og annar að stærð 4 mældist klukkan 12 mínútur yfir átta 2,3 kílómetra vestsuðvestur af Fagradalsfjalli.

Hrinan er nú einkum bundin við svæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Alls hafa 25 skjálftar yfir 3,0 að stærð mælst frá miðnætti, þeir stærstu í nótt mældust 3,8, klukkan hálf þrjú í nótt, og fannst hann víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Þá mældist annar 3,7 klukkan fjórtán mínútur yfir fjögur og fannst hann á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu.

Svona hrinur eru ekki einsdæmi á þessu svæði t.d. mældust um fimm skjálftar þann 10. júní árið 1933 sem voru af stærð 4,9 til 5,9 við Fagradalsfjall.

Yfir sex þúsund jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst þann 24. febrúar.

Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við uppfærðar upplýsingar Veðurstofunnar.